Fjölprent hefur keypt Merkismenn og sameinar starfsemi fyrirtækjanna undir sínu nafni. Merkismenn hafa starfað allt frá árinu 1989 við skiltagerð, auk þess að merkja bíla og prenta útifána sem og margvíslegar gluggafilmur. Eftir kaupin verður þessi þjónusta Merkismanna í boði undir nafni Fjölprents. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Fjölprent hefur lengi sérhæft sig í prentun auglýsingaskilta, límmiða og fána og eftir kaupin á Merkismönnum getur fyrirtækið boðið viðskiptavinum upp á fjölbreytilegri skiltagerð en áður, auk bílamerkinga og prentunar og uppsetninga á sandblásturs- og sólarfilmum,“ segir í tilkynningunni.

"Við erum mjög ánægð með þessa viðbót við starfsemi Fjölprents. Merkismenn hafa lengi verið með öflugri aðilum á sínu sviði og það styrkir okkur gríðarlega að geta boðið jafn víðtæka þjónustu alla á sama stað." segir Ragnar Másson, framkvæmdastjóri Fjölprents og bætir við: "Við erum stanslaust að leita leiða til þess að þjónusta okkar viðskiptavini enn betur og þetta er frábær viðbót við okkar fjölbreytta þjónustuframboð."