„Þetta er venjulegt fólk sem kemur að leifunum að þessu hruni, vill ekki skulda neinum og óhrætt við að vera með skítugar hendur,“ segir Ragnar I. Pétursson, framkvæmdastjóri Sigurplasts um nýja eigendur fyrirtækisins sem standa að einkahlutafélaginu Hilmari D. Ólafssyni.

Hilmar vinnur við snjómokstur og gröfumoskur en hefur samhliða því rekið fyrirtækið Sellóplast um nokkurt skeið með konu sinni og tveimur sonum. Fyrirtækið framleiðir m.a. plast utan um páskaegg. Ragnar segir fjölskylduna alla fremur gamaldags í fjármálum, hún hafi hvorki tekið lán fyrir bílum né Hilmar til kaupa á tækjum sínum. Í staðinn vinni þau fyrir þeim með það fyrir augum að geta reitt fram staðgreiðslu.

Samningar tókust fyrir páska um kaup fjölskyldufyrirtækisins á Sigurplast. Það er Eignabjarg, dótturfyrirtæki Arion banka, sem seldi reksturinn. Ekkert hefur verið gefið upp um kaupverð. Ragnar segir verðið að mestu greitt með eigin fjármagni auk þess sem viðskiptabanki fjölskyldunnar, Íslandsbanki, hafi veitt fyrirgreiðslu. Arion banki kemur ekkert að fjármögnun kaupanna, að sögn Ragnars.

Hann segir þetta traustan rekstur sem sveiflist lítið. Fjölskylda Hilmars líti á kaupin sem langtímafjárfestingu. „Þetta er ellilífeyrinn þeirra,“ segir hann.

Reksturinn var í henglum

Sigurplast var stofnað árið 1960 og framleiðir ílát og flöskur úr plasti og sinnir álíka þjónustu. Þetta var sjálfstætt fyrirtæki uns það sameinaðist Plastprenti árið 2003. Í mars fjórum árum síðar var það selt nýjum eigendum. Fjöldi blaðagreina hefur verið skrifaður um það hvernig Sigurplasti reiddi af í þeirra höndum. Í stuttu máli sagt fór fyrirtækið í þrot haustið 2010 eftir að Arion banki gjaldfelldi 1,1 milljarða króna lán fyrirtækisins gagnvart bankanum. Skiptastjóri var skipaður yfir félagið og seldi hann nafnið og vörubirgðir til Eignabjargs. Eins og fram kemur í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young sem unnin var fyrir skiptastjóra og skrifað hefur verið um í DV þá leikur grunur á að framin hafi verið ýmis lögbrot í rekstrinum, skattalagabrot, skilasvik og fleira. Í DV hefur sömuleiðis komið fram að lögregla rannsaki starfsemi fyrir eigenda.

Starfsmenn héldu fyrirtækinu á lífi

Ragnar segir aðkomuna að Sigurplasti eftir fyrri eigendur sem ráku fyrirtækið áður en bankinn tók það yfir hafa verið slæma. Áður en reksturinn fór í þrot hafi þeir flutt umboð frá erlendum birgjum yfir í annað félag og skilið bókhaldið eftir í henglum. Innfluttar vörur námu þriðjungi af veltu Sigurplasts. Þá hafi ekki bætt úr skák að Samkeppniseftirlitið sneið bankanum þröngan stakk þegar kom að rekstri yfirtekinna fyrirtækja. Það hafi komið Sigurplasti illa sem gat lítið hreyft sig á markaðnum.

Starfsmenn Sigurplasts eru um tíu og með langan starfsaldur. Sá sem hefur verið styst hefur starfað þar í um áratug. Því var sagt upp þegar fyrirtækið fór í þrot fyrir tæpum tveimur árum en var endurráðið skömmu síðar.  „Starfsfólkið hélt fyrirtækinu á lífi þegar bankinn átti það og þeim tókst að reka það á núlli. Nú ætlum við að reisa Sigurplast upp úr öskustónni,“ segir Ragnar.

Úr verksmiðju Sigurplasts
Úr verksmiðju Sigurplasts
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Íbyggnir starfsmenn Sigurplasts. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir þá hafa haldið lífi í fyrirtækinu við erfiðar aðstæður.