Félagið Ásgeir Þór og synir ehf var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness 6. desember síðastliðinn. Félagið var að mestu í eigu Ásgeirs Þórs Davíðssonar, sem betur var þekktur í lifanda lífi sem Geiri í Goldfinger. Hann átti 70% hlut í félaginu á móti konu sinni og tveimur sonum. Félagið á fasteignina þar sem nektardansstaðurinn Goldfinger er til húsa í Kópavogi.

Ásgeir Þór og synir ehf tapaði 53,7 milljónum króna árið 2010, skuldaði 135 milljónir og var eigið fé þess neikvætt um 156 milljónir króna í lok ársins. Félagið átti árið 2010 þrjár fasteignir sem bókfærðar voru á 84,9 milljónir króna. Dánarbú Geira á nú félagið og óskaði það eftir gjaldþrotaskiptunum. Kallað hefur verið eftir kröfum í búið.

Geiri í Goldfinger lést í apríl síðastliðnum aðeins 62 ára að aldri. Viðskiptablaðið greindi frá því undir lok síðasta mánaðar að kröfur í dánarbú hans nemi um 200 milljónum króna, það eigi ekki fyrir skuldum og fái erfingjar Geira ekkert úr dánarbúinu að honum gengnum. Landsbankinn og Drómi, þrotabú Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON, eiga megnið af kröfunum eða upp á milli 180 til 190 miljónir króna. Skiptastjóri hefur farið með dánarbúið eftir lögum um gjaldþrotaskipti og leitast við að selja eignir upp í kröfur.