Fyrirtækið Modulus er lítið fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað til að bjóða upp á nýjan möguleika í byggingariðnaði. Fyrirtækið býður fólki upp á að kaupa svokallaðan módul, sem eru fullútbúin timburhús. Öll bygging módúlsins fer fram á sama stað, hjá sömu verksmiðjunni, og fær fólk því fullklárað hús upp í hendurnar. Berta Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn eigenda Modulus, segir að margir lendi í vandræðum þegar á að byggja ný hús vegna þekkingarleysis. Hjá Modulus þarf fólk ekki að hafa áhyggjur á því þar sem húsin eru afhent fullkláruð.

Berta stofnaði fyrirtækið ásamt móður sinni, Iðunni Jónsdóttur, og bróður sínum, Jakob Helga Bjarnasyni. „Ég er 27 ára og var áður að vinna á lögfræðistofu og hafði unnið þar frá útskrift. En ég fann að það hentaði mér ekki alveg,“ segir Berta. „Við vorum öll þrjú stödd á krossgötum, svo það varð úr að kýla bara á þetta,“ bætir hún við.

Lögfræðingur og hugmyndasmiður

Samstarfið gengur ótrúlega vel að sögn Bertu. „Ég er lögfræðingur og bróðir minn er mikill hugmyndasmiður, kemur alltaf með nýjar hugmyndir. Hann Jakob fær fimm hundruð nýjar hugmyndir á viku.“ Berta er meira í praktísku hliðinni, varðandi bókhald og rekstur. „Ég keyri hlutina svolítið áfram. Svo er Jakob líka í fleiri verkefnum þannig að ég held meira utan um þetta,“ segir hún.

Berta tekur einnig fram að það sé hægt að koma húsunum fyrir hvar sem er. En það sem hrinti fyrirtækinu almennilega af stað var að byggingarreglugerðum var breytt sem þýðir að einstaklingar sem eiga ónýttan byggingarreit á sinni lóð geta nú nýtt hann fyrir minni hús.

„Þetta er nú hægt án þess að fá leyfi sem geta verið svifasein í afgreiðslu. Þú þarft að tilkynna það til byggingaryfirvalda, en það munar mjög miklu að þurfa ekki að fara með teikningar og önnur gögn,“ segir Berta. Hún bætir við að fyrirtækið sé að koma inn á markaðinn á mjög skemmtilegum tíma þar sem ákveðin vakning sé í smáhýsamálum. Til að mynda er búið að stofna hagsmunasamtök smá- hýsaeigenda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .