Snorri Jónsson er stofnandi og meðeigandi Reykjavík Distillery, fyrsta íslenska fyrirtækisins sem eimaði áfengi hér á Íslandi. Snorri rekur fyrirtækið með eiginkonu sinni Judith. Fyrirtækið var stofnað 2009 og hefur reksturinn gengið þokkalega frá byrjun að sögn eigandans. „Þetta hefur verið frekar stöðugur vöxtur frá því að við byrjuðum. Við finnum enga sérstaka bombu síðustu misseri,“ segir hann. Talsvert er í bígerð hjá Reykjavík Distillery sem er nú að framleiða nýja tegund af gini og stefnir fyrirtækið jafnvel á að framleiða eigið viskí.

„Það tók frekar langan tíma að koma rekstrinum í sjálfbært ástand. Fyrirtækið var fjögur-fimm ár í rekstri áður en afgangur var af rekstrinum, það var sem sagt tap í fjögur eða fimm ár. Nú höfum við snúið því við og það gengur ágætlega, fyrirtækið stendur undir sér, þó að það séu ekkert endilega myljandi viðskipti. Þetta er fjölskyldufyrirtæki sem var fjármagnað með sparnaði. Það er okkar eigin fé sem var notað í rekstur fyrirtækisins. Við höfum verið að lána fyrirtækinu fé, öll þessi ár sem að við vorum í tapi, allt úr eigin vasa. Því hefur maður hugsað sig tvisvar, og jafnvel þrisvar um, í hvað fyrirtækið eyðir peningunum,“ segir Snorri.

Þurftu að synda á móti straumnum

Reykjavík Distillery átti á brattann að sækja til að byrja með. „Við erum fyrsta íslenska fyrirtækið sem eimar áfengi hér á Íslandi. Það er frekar merkilegt. Við þurftum að synda á móti straumnum þá, og áttum á brattann að sækja við að selja þessa hugmynd. Fyrirtækið þurfti að biðja um nokkuð hærra verð en þær vörur sem voru á markaðnum þá. Það sem áður var í boði var blanda af innfluttu bragðefni, sykri og áfengi. Það er tiltölulega ódýr og þægileg framleiðsluaðferð,“ segir Snorri.

„Bláberjalíkjörinn var fyrsta varan sem kom á markað hjá okkur. Eitt kíló af bláberjum kostar til að mynda 1.200 krónur beint frá býli. Það fer eitt kíló af berjum í lítra af innihaldi þannig að innihald vörunnar er mjög dýrt. Þegar þú ert með svona gæðavöru er þetta ekki spurning um magn. Þú vilt frekar fá minna magn en að fá hana á rétta verðinu og geta þá átt möguleika á því að kaupa góða vöru og gefa hana frá þér á viðráðanlegu verði,“ bætir hann við.

Reykjavík Distillery er hluti af þeim íslensku áfengisframleiðendum sem hafa rutt sér til rúms á síðustu misserum. Í úttekt Viðskiptablaðsins á íslenskri framleiðslu á áfengum drykkjum kemur fram að hátt í fimmtíu sterkar áfengistegundir eru framleiddar á Íslandi. Snorri tekur undir að hljóðláta byltingin sé réttnefni og segir að félagið hafi ekki verið mikið í því að markaðssetja sig. „Það skýrir það kannski að við erum tiltölulega óþekkt, þó að við séum með fyrstu fyrirtækjunum sem eru með þessa hugmynd: Að taka íslensku jurtirnar og setja íslenskan vinkil á áfengi og framreiða það á frambærilegan hátt, þannig að Íslendingar geti verið stoltir af bæði útlitinu og innihaldinu,“ segir hann.

Uppistaðan íslensk hvönn og einiber

Reykjavík Distillery er um þessar mundir að setja á markað nýtt gin sem ber nafnið Angelica. Uppistaðan í gininu er íslensk hvönn og einiber, en þaðan kemur nafnið Angelica – sem er fræðiheiti hvannarinnar. „Fleiri íslensk krydd eins og rabarbari, bláber, krækiber, kúmen og blóðberg eru í bakgrunninum. Þetta er gin sem er úr allt annarri átt en einiberja-ginið okkar. Það er aðeins léttara yfir því og í því er hvönn – sem er krydd Íslands númer eitt. Það var sú jurt sem forfeður okkar notuðu hvað mest. Áður fyrr var hún var notuð sem tónik fyrir meltinguna, krydd og allra meina bót og það voru hörð viðurlög fyrir því að stela hvönn nágrannans,“ segir Snorri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .