Hrund Rudolfsdóttir sest í forstjórastól Veritas um miðjan þennan mánuð. Hún hefur langa reynslu af stjórnunarstöðum og síðustu fjögur ár hefur hún verið yfir starfsþróunarsviði Marels. Hjá Marel starfa um 4.000 manns í 30 löndum. Hreggviður Jónsson hefur stýrt Veritas-samstæðunni frá stofnun. Félagið sérhæfir sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu og er móðurfélag fjögurra félaga, Vistor, Distica, Artasan og Medor. Hrund er ekki alls ókunn félaginu því hún hefur setið í stjórn þess frá árinu 2009.

Köttur, hundur og hestar
Eiginmaður Hrundar er Kristján Óskarsson barnaskurðlæknir. Dætur þeirra eru þrjár, á aldrinum 6 til 19 ára. Þá er köttur og „óþekkur“ labrador á heimilinu. Hestar í eigu fjölskyldunnar eru átta talsins og segir Hrund að hjónin njóti þess að fara í ferðalög um hálendið yfir sumartímann. Spurð um önnur áhugamál nefnir hún bridgeklúbbinn með vinum frá Danmörku, bókaklúbbinn með vinkonunum og fjölskylduna og vini í Borgarfirði. „Við eyðum öllum lausum stundum í sumarbústaðnum á Mýrunum, þar sem er fegurst allra staða,“ segir Hrund.

Í stjórnum fjölda félaga
Hrund er með Cand.oecon. gráðu frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2000. Árið eftir gerðist hún rekstrarstjóri hjá Lyf og heilsu og árið 2003 varð hún framkvæmdastjóri félagsins. Samhliða var hún framkvæmdastjóri rekstrar- og fjárfestingarverkefna hjá Moderna Finance. Það fól í sér uppbyggingu, rekstur og stjórnun fjárfestinga tengd lyfja- og helbrigðismálum innan Milestone-samstæðunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.