Kristinn Már Gunnarsson, kaupsýslumaður, hefur náð gífurlegum árangri á erfiðum Þýskalandsmarkaði sem og víðar undanfarin ár. Hann hefur nú hann sagt skilið við daglegan rekstur í fyrirtækjum sínum og einbeitir sér að ástríðuverkefnum á borð við Cintamani.

Getur þú sagt mér aðeins frá þér og stöðu þinni í dag?

„Ég er mjög rólegur í flestu í dag. Ég er mikill fjölskyldumaður og er búinn að vera með konunni minni í 25 ár en við kynntumst einmitt í háskólanum í Trier. Fjölskyldulífið er okkur sérstaklega dýrmætt og við eigum þrjú börn, 18, 12 og 6 ára. Ég reyni að stjórna verkefnunum í kringum fjölskylduna og þó að ég hafi verið mikið á ferðalögum þá hefur mér oftast tekist að vera heima um helgar. Eftir að fyrsta barnið fæddist þá tók ég svo þá ákvörðun að fara alltaf úr vinnunni um hádegi á föstudögum. Þegar ég byrjaði svo að koma meira heim til Íslands fyrir þremur árum síðan, tók ég þá ákvörðun að ráða framkvæmdastjóra í öll fyrirtækin og fór sjálfur út úr öllum daglega rekstri.

Ég á fyrirtæki í Düsseldorf sem heitir Arctic Group sem sinnir þeim hlutum sem ég hef alltaf verið að gera, þ.e. að reka verslanir, selja vörur til vöruheildsala og að ráðleggja fyrirtækjum sem hafa hug á því að komast inn á Þýskalandsmarkað.“

Er Arctic Group þá móðurfyrirtæki annarra fyrirtækja í þinni eigu?

„Nei, það var upprunalega þannig en ég breytti því hruninu. Áður var ArcticGroup ArcticGroup móðurfélagið og inní því var svo Arctic Investment, Arctic Retail og Arctic Wholesale. Þegar allt bjagaðist í hruninu þá breytti ég fyrirkomulaginu. Fyrirtækin eru öll á sínum kennitölum og ég á þau öll persónulega og ég er ekki með nein þakfyrirtæki. Þetta er bara ákvörðun sem ég tók á sínum tíma. Þetta á það til að verða svo flókið svo fljótt og ég vil að það sé ljóst að það er ég sem er fjárfestirinn en ekki bara eitthvert fyrirtæki sem enginn veit hver á. Ég fjárfesti þannig til að mynda í Cintamani sem Kristinn Már Gunnarsson og það sama má segja um öll fyrirtækin sem ég á úti. Ég á þau öll persónulega. Arctic Group er í raun ráðgjafafyrirtæki. Við vinnum mikið með breskum merkjum og komum t.d. með New Look til Þýskalands. Þá höfum við líka verið að vinna með fyrirtækjum á borð við Debenhams, Warehouse og Coast og öðrum þekktum merkjum.“

Tökum ábyrgð á eigin lífi

Kristinn segir að heilsu- og útivistarmál séu honum sérstaklega hugleikin og endurspeglast það bæði í störfum hans og hversdagslífi. „Í gegnum lífið hef ég lent í því að missa pabba minn úr lífsstílstengdum sjúkdóm, þá 61 árs, og síðar greindist móðir mín með alzheimer, aðeins 59 ára. Við þessi áföll breyttist eitthvað í mér. Ég held að fólk sé almennt búið að fatta það að við tökum ábyrgð á eigin lífi, heilsu og hamingju. Ef við erum glöð, borðum vel og hreyfum okkur þá líður okkur einfaldlega betur. Þetta er mér mjög mikilvægt og það má segja aðég hafi sjálfur umbreytt lífi mínu í lok ársins 2012, en þá byrjaði ég að borða hollara, hætti að drekka áfengi og fór að hlaupa og hreyfa mig. Þetta var mikil umbreyting fyrir mig en áður hafði ég ekki verið í góðu formi. Ég hljóp mitt fyrsta maraþon í fyrra og mun hlaupa annað núna í október. Ég er í mjög góðum vinahóp og við strákarnir hlaupum alltaf saman á laugardögum. Síðustu þrjú ár höfum við hlaupið tvö hálfmaraþon á ári, eitt á vorin og eitt á haustin.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.