Eignarhaldsfélag Mike Ashley, Mash Holdings, á 64,4 milljóna punda kröfu, eða sem nemur 10,7 milljörðum króna, á náinn fjölskyldumeðlim, samkvæmt ársreikningi félagsins. Lánið er vaxtalaust og ekki endurgreiðanlegt fyrr en í árslok 2030. Lántakandinn var ekki nafngreindur. Bloomberg greinir frá.

Mash Holdings gjaldfærði 1,3 milljónir punda eða um 215 milljónir króna vegna notkunar á einkaþotu og þyrlu í hans eigu á fjárhagsárinu sem lauk 25. apríl á síðasta ári.

Ashley er meirihlutaeigandi Frasers Group sem á verslunarkeðjuna House of Fraser, smásölufyrirtækið Flannels og íþróttavörukeðjuna Sports Direct. Í júní keypti Frasers fataverslunina Missguided. Auk þess jók samstæðan nýlega við eignarhlut sinn í Hugo Boss og fer nú með 4,9% beinan hlut í þýsku fatakeðjunni og á kauprétti á 26% hlut til viðbótar.

Í ársreikningnum kemur fram að Ashley hafi greitt tengdasyni sínum Michael Murray 21 milljón punda, eða um 3,5 milljarða króna, fyrir ráðgjafarstörf áður en hann var ráðinn forstjóri Frasers. Í umfjöllun Bloomberg segir að Ashley hafi verið gagnrýndur fyrir að greina ekki frá fjölskyldutengslum við Murray sem tók formlega við stöðunni í byrjun apríl síðastliðinum.

Ashley seldi knattspyrnufélagið Newcastle United á síðasta ári til fjárfestahóps sem PIF, þjóðarsjóður Sádi Arabíu leiddi.