Dagur um málefni fjölskyldunnar var haldinn í annað sinn sl. laugardag en við það tækifæri voru veittar  viðurkenningar til fjölskylduvænna fyrirtækja og stofnana árið 2008.

Tilkynningu vegna valsins segir að tilgangur dagsins sé að hvetja íbúa bæjarins til umræðu um málefni fjölskyldunnar á líðandi stundi en erindi fluttu: Árni Sigfússon bæjarstjóri sem fjallaði um Reykjanesbæ sem fjölskylduvænt samfélag, hjónin Sigríður B. Guðjónsdóttir og Skúli S. Ólafsson um að samræma fjölskyldulíf og starfsframa, Sigurbjörg Dagmar Hjaltadóttir ráðningar- og starfsþróunarstjóri Intrum fjallaði um fjölskyldustefnu Intrum og Jónína Ágústsdóttir skólastjóri Akurskóla velti fyrir sér spurningunni: Skiptir viðurkenning máli?

Árni Sigfússon sem jafnframt er formaður fjölskyldu- og félagsmálaráðs veitti að lokum viðurkenningu til fyrirtækja og stofnana sem leggja áherslu á fjölskylduna í starfsemi sinni. Eftirtalin fyrirtæki  tóku samkvæmt mati starfsmanna þeirra, tillit til fjölskyldunnar og veittu henni sess í starfsemi og uppbyggingu fyrirtækisins.

  • Leikskólinn Tjarnarsel
  • Bílahornið hjá Sissa
  • Hitaveita Suðurnesja

Þetta er í sjötta sinn sem Reykjanesbær stendur fyrir viðurkenningum til fjölskylduvænna fyrirtækja og var auglýst eftir rökstuddum tilnefningum frá starfsmönnum fyrirtæka og stofnana.  Þeir sem áður hafa fengið viðurkenningar eru;  Íslandsbanki, Sparisjóðurinn í Keflavík, Leikskólinn Hjallatún,  Bókasafn Reykjanesbæjar, Leikskólinn Gimli, Akurskóli, Íþróttamiðstöð Njarðvíkur, Toyotasalurinn, Dagdvöl aldraðra, SJ innréttingar og Intrum útibúið í Reykjanesbæ. Reykjanesbær hefur sett sér fjölskyldustefnu sem hefur það m.a. að markmiði að stuðla að heildstæðri samstöðu og samhljóm milli vinnu og fjölskyldulífs.  Þetta er gert  með því að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að setja sér fjölskyldustefnu og veita síðan árlega viðurkenningar til  þeirra sem  sýna  í verki að þeir taki tillit til fjölskyldunnar í resktri og starfsemi sinna fyrirtækja.

Með því að hvetja til samhljóms milli vinnu og fjölskyldulífs er um leið verið að  stuðla að jafnrétti kynjanna. Þau fyrirtæki sem hafa sett sér fjölskyldustefnu eru fyrirmyndir og þeir sem hafa í hyggju að setja sér slíka stefnu geta leitað í smiðjur þeirra.

Verðlaunahafar fengu að gjöf listmuni eftir Rúnu Hans myndlistarkonu í Reykjanesbæ.

Eftirfarandi er rökstuðningur Fjölskyldu- og félagsmálaráð sem tók afstöðu til tilnefninga:

Bílahornið hjá Sissa Í tilnefningu og rökstuðningi frá starfsmönnum fyrirtækisins segir  "tillit er tekið til þess að starfsmenn farí í foreldraviðtöl í skólum vegna barna sinna. Einnig er velvilji fyrir því að börnin fái að koma með foreldrum til vinnu ef svo stendur á."  Í tilnefningunni er anda fyrirtækisins þannig lýst að þau séu eins og ein stór fjölskylda.  Innlegg bæjarstjóra Hér er um að ræða lítið fyrirtæki þar sem karlmenn ráða ríkjum.  Það er því mjög ánægjulegt að vita að þar ríkir góður fjölskylduandi ekki síður en á stærri vinnustöðum, þar sem konur eru í meirihluta.

Tjarnarsel Í tilnefningu og rökstuðningi frá starfsfólki leikskólans kemur fram að tekið sé tillit til þess ef starfsfólk fari á viðburði innan skóla barna sinna. Börn og barnabörn starfsfólks eru alltaf velkomin í heimsókn í leikskólann. Leikskólastjórar eru afar skilningsríkir gagnvart starfsmönnum sínum og góð vinátta hefur myndast  meðal starfsmanna.   Starfsfólk Tjarnarsel hefur fjölskylduna að leiðarljósi og sýnir börnum jafnt sem fullorðnum tilhlýðilega virðingu og kurteisi.  Í fjölskyldustefnu Tjarnarsels segir:  ,,starfsmenn komi fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur,,. Starfsfólk tekur þátt í gleði- og sorgarstundum hvers annars, einnig sýna þeir skilning og tillitsemi vegna veikinda og annars sem upp kann að koma. Innlegg bæjarstjóra Tjarnarsel er hefðbundin kvenna vinnustaður og þar eru kvenn skörungar við stjórnvölin. Konum er það í brjóst borið að hugsa vel um og hlúa að fjölskyldunni, það má því gera ráð fyrir að eftir því sem þeim fjölgar í stjórnun fyrirtækja, fái málefni fjölskyldunnar meira vægi.  Ég býð Tjarnarsel velkomið í hóp fjölskylduvænna stofnanna Reykjanesbæjar.

Hitaveita Suðurnesja Í tilnefningu og rökstuðningi frá starfsmönnum kemur fram að fyrirtækið og stjórnendur hafi alltaf stutt vel við bakið á sínu starfsfólki og reynst starfsmönnum og fjölskyldum þeirra einstaklega vel. Ef upp hafa komið erfiðleikar hjá starfsmönnum hefur þeim verið gefinn kostur á að takast á við þá.  Einnig hefur fyrirtækið verið með sveigjanlegan vinnutíma í ákveðin tíma eftir að fæðingarorlofi lýkur eða viðkomandi er að ná sér eftir veikindi. Velvilji er innan fyrirtækisins um að leyfa starfsmönnum að sinna foreldraviðtölum og öðru sem snýr að fjölskyldum starfsfólks innan vinnutíma og einnig hafa börn fengið að koma með foreldrum til vinnu ef um starfsdaga eða frídaga er að ræða í skólanum.