Svo virðist sem að það sé að lifna yfir innlendum hlutabréfamarkaði á ný eftir frekar dauflegar vikur að undanförnu, segir greiningardeild Glitnis.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað fimm viðskiptadaga í röð og það sem af er degi hefur hún hækkað um 1,07%, því hefur ávöxtun hennar frá áramótum farið úr -2,5% í +5,3%, að sögn greiningardeildarinnar sem bendir á að rekstrarhorfur flestra fyrirtækja í Kauphöll Íslands séu góðar og góð kauptækifæri eru í nokkrum félögum fyrir þolinmóða fjárfesta.

Sérfræðingar sem Viðskiptablaðið ræddi við í gær telja að það verði rólegt um að litast á íslenska hlutabréfamarkaðinum fram að hausti. Þá sagði sérfræðingur að ekki þurfi mikið að gerast til að líf færist yfir markaðinn og nefnir hugsanleg kaup Actavis Group á Pliva sem dæmi.

?Til skemmri tíma litið hafa markaðsaðstæður og ytri skilyrði ekki verið hagfelld. Hátt og hækkandi vaxtastig og flökt á gengi krónunnar hefur gert það síður fýsilegt að fjármagna hlutabréfakaup með lánsfjármagni. Að sama skapi býðst prýðileg áhættulaus ávöxtun á peningamarkaði," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin spáði í upphafi árs að úrvalsvísitalan myndi hækka um 20% á árinu og segist ekki sjá ástæðu til þess að breyta þeirri spá að svo stöddu.

?Það sem gerir hlutabréfamarkaðinn spennandi horft fram til næstu fjórðunga er ekki eingöngu að vænta má góðra uppgjöra fyrirtækja á næstu fjórðungum. Fyrirsjáanleg skráning nýrra félaga í Kauphöllina (Exista, Icelandair) auk hræringa á eignarhaldi félaga (Straumur-Burðarás, TM) virðast falla fjárfestum vel í geð enda mögulegt að fyrirtækjalandslag kunni að breytast og að fjölbreytni í fjárfestingakostum aukist," segir greiningardeildin.