Íslenskir innflytjendur bíla hafa spennt á sig beltin og búið sig undir að bruna af stað. Sölutölur hafa aukið bjartsýni um að góðir tímar séu framundan enda hefur bílainnflutningur ekki verið meiri í um tvö ár og hefur sala nýrra bíla aukist um 20% það sem af er þessu ári.

Það er þó fjarri því að góðæri ríki í greininni, margir eru enn sárir eftir síðustu misseri, og söluaukningin á markaðnum er í takt við það sem menn höfðu spáð. Aðilar á bílamarkaði spá því að um 13 þúsund nýir bílar muni seljast á þessu ári, en miðað við hvað salan hefur verið dræm síðustu ár, telja margir að eðlileg sala ætti að vera nær tuttugu þúsund bílum yfir árið.

Menn lifa í voninni um að salan muni senn rjúka af stað og í hálffimm fréttum KB banka í síðustu viku var þeirri spurningu velt upp hvort aukin bílasala væri til marks um vaxandi einkaneyslu í þjóðfélaginu. Það kann vel að vera en rétt er að hafa í huga að einn af hverjum fimm bílum sem hafa selst á þessu ári hefur verið seldur til bílaleiga - um 1.500 bílar og þeir skila sér væntanlega flestir inn á markaðinn á ný fljótlega.

Ítarleg úttekt er á stöðunni á bílamarkaðinum í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.