Gengið hefur verið frá samningum um að Orkuveita Reykjavíkur muni taka við rekstri fjögurra fráveitna sveitarfélaga á athafnasvæði fyrirtækisins frá og með áramótum. Í frétt Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að heildarverðmæti fráveitumannvirkja, sem Orkuveita Reykjavíkur tekur nú við, er um 22 milljarðar.

Um er að ræða Fráveitu Reykjavíkur, Fráveitu Akraness, Fráveitu Borgarbyggðar og Fráveitu Borgarfjarðarsveitar, en þessi sveitarfélög eru eigendur Orkuveitu Reykjavíkur.

Á þessum tímamótum tekur við nýr kafli í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur sem fyrir sér viðskiptavinum sínum fyrir rafmagni, heitu vatni, köldu vatni og gagnaveitu. Rekstur fráveitu er sambærilegur rekstur og í öðrum veitum og þessi nýja starfsemi nýtir innviði fyrirtækisins. Í frétt OR kemur fram að nýjum stoðum er með þessu rennt undir starfsemi fráveitnanna, sem eru misjafnlega á vegi staddar í því mikla umhverfisverkefni sem fráveitur eru.

Lagnakerfi fráveitnanna er um 800 km langt. Stærsta verkefni fráveitunnar og eitt mesta umhverfisbótaverkefni sem unnið hefur verið að hér á landi var hreinsun strandlengjunnar við Reykjavík. Stærstu sjáanlegu mannvirkin þar eru hreinsistöðvarnar tvær, sjö dælustöðvar og 6-7 minni stöðvar á víð og dreif í kerfinu. Sú reynsla og þekking, sem þar hefur skapast verður nýtt til þeirra verkefna sem fyrir liggja annars staðar.

Til töluverðra fjárfestinga þarf að koma á næstu árum hjá fráveitunum á Akranesi, Borgarnesi og í Borgarfjarðarsveit til þess að mæta kröfum reglugerða.