*

sunnudagur, 20. júní 2021
Fólk 31. maí 2021 13:31

Fjórar til liðs við Kolibri

Þær Guðný Þórfríður, Lína Viðarsdóttir, Telma Guðbjörg og Margrét Finnbogadóttir eru nýir sérfræðingar hjá Kolibri.

Ritstjórn
F.v. Telma Guðbjörg, Lína, Guðný Þórfríður og Margrét.
Aðsend mynd

Fjórir sérfræðingar hafa gengið til liðs við Kolibri, þær Guðný Þórfríður Magnúsdóttir, Lína Viðarsdóttir, Telma Guðbjörg Eyþórsdóttir og Margrét Finnbogadóttir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kolibri. 

Guðný Þórfríður er sérfræðingur í notendaupplifun (UX) og býr yfir mikilli reynslu á sviði rannsókna á þörfum notenda. Hún hefur áður starfað hjá Tempo, WOW air og Origo, en hún er með M.Sc. gráðu í notendamiðaðri hönnun frá IT University of Copenhagen. „Síðustu ár hef ég unnið við notendarannsóknir þar sem mitt helsta markmið er að hafa samkennd með notendum og skilja þarfir þeirra til að skapa jákvæða upplifun. Einnig hef ég mikinn áhuga á aðgengismálum og hef það alltaf í huga að veflausnir og kerfi gagnist öllum notendum, óháð getu," segir Guðný, í tilkynningunni.

Lína er sérfræðingur í stafrænni verkefna- og vörustjórnun. Hún kemur til Kolibri frá CrewApp, en hún starfaði áður sem vörustjóri hjá Valitor. Lína stundaði nám við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með B.Sc. gráðu í stærðfræði og M.Sc. gráðu í tölvunarfræði. „Ég hef mikinn áhuga á teymisvinnu og því hvernig sé hægt að skapa umhverfi þar sem bæði einstaklingurinn og teymið blómstra. Í starfi mínu sem vörustjóri hjá Valitor kynntist ég og starfaði með frábæru teymi frá Kolibri sem deildi sömu sýn og ég. Ég er því komin á kunnuglegar slóðir þegar kemur að vinnubrögðum og aðferðum Kolibri," segir Lína, í tilkynningunni.

Telma er sérfræðingur í framendaforritun og starfaði áður við vefþróun hjá Nova. Hún er með B.Sc gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. „Hjá Nova var ég partur af frábæru teymi sem sá meðal annars um uppbyggingu á nýjum vef og appi, þróun á innri kerfum ásamt ýmsum öðrum spennandi verkefnum. Á þessum 4 árum hjá Nova hef ég fengið tækifæri til að vaxa og dafna og fengið að taka þátt í að leiða stór og krefjandi verkefni eins og t.d þróun á nýjum mínum síðum," segir Telma, í tilkynningunni.

Margrét er sérfræðingur í framendaforritun og kemur frá Kolofon, þar sem hún starfaði við vefþróun. Hún útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2019, með bakkalárgráðu í hugbúnaðarverkfræði. 

Hjá Kolibri starfa 25 sérfræðingar í þverfaglegum teymum á sviði hönnunar, stjórnunar og hugbúnaðargerðar við fjölbreytt stafræn verkefni.