Icelandair hefur ákveðið að senda fjórar Boeing 757 vélar í niðurrif á næstu vikum. Fyrsta vélin er lögð af stað frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna vegna þessa. Níu vélum verður flogið til Roswell í New Mexico í geymslu fyrir veturinn. Frá þessu er greint á vef Vísis.

Segir Sigrún Össurardóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa Icelandair, við Vísi að tvær af vélunum munu fara til Kansas í Bandaríkjunum. „Íhlutir úr þeim verða notaðir í okkar rekstur, ásamt því að töluverður markaður er fyrir þá. Auk þess mun starfsfólk okkar í skýlinu í Keflavík sjá um niðurrif á tveimur vélum til viðbótar á næstu vikum,“ segir Sigrún.

Vélin TF-ISL, Öræfajökull, lagði af stað klukkan hálf tíuleytið í morgun og er áætlað að hún lendi til Kansas klukkan 16 að íslenskum tíma. Icelandair fékk vélina afhenta í mars 2012 en hún er tæplega 29 ára gömul.

Segir Sigrún enn fremur að Icelandair þurfi að fækka flugvélum sínum og hafi niðurrif verið hagkvæmasti kosturinn fyrir þessar fjórar vélar. Fyrr á árinu var greint frá því að meðalaldur Boeing 747 véla Icelandair væri orðinn 24 ára en að elsta vélin væri 31 árs gömul.

Íslenskt félag kaupir vélar Icelandair

Í gærkvöldi greindi Icelandair frá því að félagið hefði selt þrjár Boeing 757-200 flugvélar fyrir nær þrjá milljarða króna. Sala félagsins var sögð vera í samræmi við áætlun Icelandair um að fækka Boeing 757 vélum í flugþota félagsins á næstu árum. Í dag greindi Kjarninn frá því að íslenskt félag hafði keypt þær vélar.

Sjá einnig: Icelandair selur þrjár Boeing 757

Um er að ræða félagið Icelease ehf. sem keypti þessar þrjár vélar Icelandair fyrir hönd fjárfestingarsjóðs á sviði flugvélaviðskipta í Delaware í Bandaríkjunum. Sá sjóður er í meirihlutaeigu Corrum Capital Management. Icelandair Group var áður fyrr fjórðungshluthafi í Icelease ehf.