Samþykkt hefur verið viljayfirlýsing um samruna Verkfræðistofunnar Línuhönnunar auk Verkfræðistofu Suðurlands, RTS Verkfræðistofu og Verkfræðistofunnar Afls.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Línuhönnun er alhliða ráðgjafarfyrirtæki í verkfræði. Verkfræðistofa Suðurlands er stærsta verkfræðifyrirtæki á Suðurlandi með fjölbreytta þjónustu. RTS Verkfræðistofa veitir alhliða ráðgjöf í rafmagnsverkfræði með áherslu á alþjóðlegan áliðnað, almennan iðnað og byggingar. Verkfræðistofan Afl er ráðgjafarfyrirtæki í rafmagnsverkfræði með sérhæfingu í raforkukerfum, orkumálum og iðnkerfum.

„Með samruna þessara fyrirtækja verður til eitt af leiðandi verkfræðifyrirtækjum landsins. Sameinað fyrirtæki veitir ráðgjöf á öllum helstu sviðum verkfræði og á fjölbreyttum tengdum sviðum. Starfsmenn fyrirtækisins verða um 220 talsins og velta nálægt þremur milljörðum,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að höfuðstarfsemi nýs félags er og verður á Íslandi, en samkvæmt tilkynningunni stundar fyrirtækið umtalsverða alþjóðlega starfsemi og vinnur að verkefnum fyrir erlenda aðila.

Fyrirtækið á hlut í verkfræði- og þróunarfyrirtækjum í Rússlandi, Póllandi, Frakklandi, Slóveníu og Tyrklandi, og er um þessar mundir að stofna útibú í Dubai í tengslum við verkefni í áliðnaði.

„Megin markmiðið með samruna fyrirtækjanna er að styrkja enn frekar samstarfið við viðskiptavini félaganna, bjóða fjölbreyttar lausnir, sterka fagþekkingu og afbragðs þjónustu í kraftmiklu fyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.

„Markmiðið er jafnframt að skapa framúrskarandi starfsvettvang fyrir starfsmenn fyrirtækisins, með góðu starfsumhverfi, sjálfstæði til athafna, metnaðarfullri fagmennsku og fjölbreyttum starfsmöguleikum.“

Ákveðið er að sameinað fyrirtæki byggi höfuðstöðvar sínar á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni, og er stefnt að flutningi í nýtt húsnæði fyrir árslok 2010. Samningar þar að lútandi voru undirritaðir í hádeginu í dag.

Samhliða því mun nýtt fyrirtæki efla samstarf sitt við Háskóla Íslands á sviði vísinda og tækni. Í því sambandi verður á næstu dögum gengið frá samstarfssamningi við verkfræðideild Háskóla Íslands þar sem sameinað fyrirtæki mun taka þátt í að efla rannsóknir og kennslu við deildina í mannvirkjaverkfræði.

Til að fagna þessum tímamótum með sameiningu félaganna og samstarfi við Vísindagarða Háskóla Íslands munu allir starfsmenn fyrirtækjanna koma saman ásamt fulltrúum Háskólans á lóð verðandi höfuðstöðva sameinaðs fyrirtækis í Vatnsmýrinni (gegnt Norræna húsinu) kl. 16:00 í dag.