Kvika og hluthafar GAMMA greindu frá því í gærmorgun að félögin hefðu undirritað viljayfirlýsingu um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA. Með kaupunum má vænta þess að til verði þriðja stærsta eignastýringafyrirtæki landsins.

„Þetta eru orðnar dálítið margar vikur síðan við byrjuðum að ræða saman. Þetta kom upp í samtölum manna. Þetta kom upp fljótlega eftir að það urðu mannabreytingar hjá GAMMA. Ég get ekki sagt að þetta hafi beint tengst því, en svona í kjölfarið á því þá ræddum við þetta saman. Við í Kviku höfum haft áhuga á að stækka í eignastýringu og fórum í tvær yfirtökur á því sviði í fyrra, með kaupunum á Virðingu og Öldu. GAMMA er aðili sem hefur gert mjög góða hluti á þessu sviði og var þess vegna áhugaverður kostur fyrir okkur. Þegar við byrjuðum að tala við GAMMA þá sáu aðilar ýmis tækifæri í því að við myndum kaupa félagið. Það þarf að vera með ákveðið stóra eignastýringu til þess að hún beri sig og skili arði. Stærðin skiptir líka máli varðandi það að við getum aukið sérhæfingu hjá sjóðsstjórum og þannig aukið gæðin í eignastýringunni. Það er kannski aðalhvatinn að baki þessari yfirtöku,“ segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.

GAMMA er fjórða fjármálafyrirtækið sem Kvika yfirtekur á einu ári, en félagið keypti fyrirtækjaráðgjöf Beringer á síðasta ári auk fyrrnefndra kaupa á Virðingu og Öldu. Kvika hefur vaxið hratt undanfarið ár. Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku banka og rekstrarfélögum í eigu bankans verða um 400 milljarðar króna gangi kaupin á GAMMA eftir. Til samanburðar voru eignir í stýringu Kviku í lok árs 2016 um 121 milljarður króna.

Viðskiptin eru þó háð ýmsum skilyrðum, svo sem niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku.

Gengi bréfa í Kviku banka hækkuðu um rúmlega 4% í 11 milljóna króna viðskiptum í gær eftir að tilkynnt var um kaup Kviku á GAMMA.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Aðrir geta skráð sig í áskrift hér .