Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, fékk viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins í gær. Tækni er algjört lykilatriði hjá Skaganum 3X.

„Tækni er grunnstefið í okkar starfsemi," segir hann. „Við getum ekki verið samkeppnishæfir nema vera á öðru tæknistigi en samkeppnisaðilar okkar. Fjórða iðnbyltingin hófst fyrir löngu hjá okkur. Okkar uppsjávarvinnslur eru dæmi um það. Þær eru nánast þannig að mannshöndin þarf ekki snerta fiskinn. Það sama má segja um búnaðinn, sem við höfum sett upp í skipum FISK Seafood og HB Granda. Sá búnaður byggir auðvitað að kælitækninni okkar en einnig myndavélatækni og flutningatækni. Lestarnar eru mannlausar."

Talið berst að Engey, nýju skipi HB Granda, sem kom til landsins í janúar. Skipið er stútfullt af búnaði frá Skaganum 3X. Sama má segja um systurskipið Akurey sem kom til landsins í júní og Viðey, þriðju eyjasysturina, sem kom til landsins rétt fyrir jólin. Öll skipin þrjú verða búin sama tækjabúnaði frá Skaganum 3X.

Skipið er tækniundur

„Í Engey er lestin sjálfvirk og er þetta fyrsti ferskfisktogari í heiminum sem er með mannlausa fiskilest. Með okkar tækjum hefur handtökum um borð verið fækkað um helming og þegar í land er komið þá sér skipið sjálft um að landa á fjórum klukkustundum. Það er til mikils unnið að hafa lestina mannlausa því störfin sem alla jafna eru unnin í lestum skipa eru þau erfiðustu og hættulegustu. Í mínum huga er þetta skip tækniundur."

Ingólfur segir að það hafi reynt mikið á að þróa og koma búnaðinum fyrir í Engey en það hafi tekist á endanum. "Forsvarsmenn HB Granda eiga hrós skilið fyrir hafa staðið með okkur í þessari vinnu."
Risasamningur í Færeyjum

Að sögn Ingólfs hefur lausn Skagans 3X í  uppsjávarverksmiðjum fyrst og fremst miðað að meiri sjálfvirkni. Hér heima eru Síldarvinnslan, Eskja og Ísfélagið í Vestmannaeyjum með búnað frá fyrirtækinu.

„Núna erum við að hefja enn eina byltinguna á þessu sviði," segir Ingólfur. "Við skrifuðum nýlega undir samning við færeyska fyrirtækið Varðin Pelagic um byggingu nýrrar uppsjávarverksmiðju á Suðurey. Gamla verksmiðja fyrirtækisins, sem var byggð árið 2012 og búin tækjum frá okkur, brann í sumar. Varðin Pelagic hefur þegar hafið framkvæmdir við 10 þúsund fermetra hús, sem er sérhannað undir nýjustu tæknina frá okkur. Í þessari nýju verksmiðju verður stigið einu skrefi lengra inn í sjálfvirknivæðinguna. Við stefnum að því að byggja stærstu og fullkomnustu uppsjávarverksmiðju í heimi á Suðurey. Gamla verksmiðjan annaði 600 tonnum af uppsjávarfiski á sólarhring en nýja verksmiðjan mun anna allt að 1.500 tonnum á sólarhring.

Samningurinn, sem Skaginn 3X í samvinnu við Kælismiðjuna Frost og Rafeyri á Akureyri, gerði við Varðin Pelagic er metinn á um 5 milljarða króna. Okkar hlutur er fast að 4 milljörðum. Þetta verkefni er það langstærsta sem íslenskt tæknifyrirtæki hefur ráðist í. Það er ekkert sem kemst nálægt þessu. Þegar Varðin Pelagic tók ákvörðun um að byggja nýja verksmiðju fóru forsvarsmenn fyrirtækisins í mikla rannsóknarvinnu og skoðuðu ýmsar ólíkar lausnir. Á endanum völdu þeir dýrustu lausnina vegna þess að þeir reiknuðu út að hún myndi borga sig langfyrst upp."

Ítarlegt viðtal er að finna við Ingólf í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af tímartinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .