Samningaviðræður Evrópusambandsins um efnahagsaðstoð sökum heimsfaraldursins eru nú á fjórða degi. Fyrst var lagt upp með 750 milljarða evra efnahagsaðstoð og er helst deilt um hvort aðgerðin sé of stór og hvort hún ætti að vera í formi láns eða styrks.

Helst er deilt milli þeirra ríkja sem verst hafa farið úr faraldrinum, eins og Ítalía og Spánn, og annarra en samkvæmt heimildum BBC hótaði Frakklandsforseti, Emmanuel Macron, að ganga úr viðræðum í gær. Ekkert varð af því en ljóst er að umræður hafi verið ansi átakasamar.

Núverandi viðræður Evrópusambandsins eru þær lengstu síðan árið 2000 þegar þær stóðu yfir í fimm daga í Nice, Frakklandi.

Tvær fylkingar

Svíþjóð, Danmörk, Austurríki, Holland og Finnland þverneita fyrir að samþykkja 500 milljarð evra styrk til þeirra ríkja sem hafa farið hvað verst úr heimsfaraldrinum. Ríkin segjast vera tilbúin til að greiða að mesta lagi 375 milljarða en Spánn og Ítalía segjast ekki geta farið undir 400 milljarða.

Því má segja að viðhorf landanna skiptast í raun í tvær fylkingar en samkvæmt færslu austurríska kanslarans á Twitter stendur núverandi tilboð í 390 milljörðum.