Samkvæmt nýrri skýrslu frá Matvælastofnun (MAST) um veiðar á langreyðum við Ísland hafa 148 hvalir verið veiddir síðan síðasta veiðitímabilið hófst í júní 2022. Af þeim hvölum sem veiddir voru, þurfti að skjóta 36 þeirra oftar en einu sinni.

Í skýrslunni kemur einnig fram að fimm hvalir voru skotnir þrisvar og fjórir voru skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftir í 5 klukkutíma án árangurs.

Matvælastofnun segir að sérstök ástæða þyki til að fara ítarlega yfir öll gögn til að meta hvort veiðar á stórhvelum uppfyllt, eða geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra.

Tölur frá Hagstofunni um veidda hvali á Íslandi frá árinu 2010.
© HAG / AÐSEND (HAG / AÐSEND)

„MAST telur að aflífun á hluta stórhvela við veiðar á Íslandi hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra. Stofnunin telur hins vegar að við veiðarnar hafi verið beitt bestu þekktu aðferðum miðað við þær aðstæður sem þessar veiðar eru stundaðar við og því hafi ákvæði um veiðar í lögum um velferð dýra ekki verið brotin.“

Af þeim 58 stórhvölum sem MAST hafði eftirlit með drápust 35 þeirra, eða 59% samstundis samkvæmt skilgreiningu Alþjóðahvalveiðiráðsins. Fjórðungur þeirra, eða 14 hvalir voru skotnir oftar en einu sinni og tvo hvali þurfti að skjóta fjórum sinnum. Af þeim tveimur sem þurfti að skjóta fjórum sinnum tók tæpa klukkustund að aflífa annan hvalinn og hinn var tvær klukkustundir að deyja.