*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 14. janúar 2020 10:36

Fjórðungi fleiri fasteignaviðskipti

Fjölgun kaupsamninga íbúðarhúsnæðis í desmber frá fyrra ári. Færri íbúðir í byggingu í Mosfellsbæ en fleiri í Hafnarfirði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á landsvísu voru 802 kaupsamningum þinglýst í desember, þar af 518 á höfuðborgarsvæðinu, sem er 25% aukning frá því í desember árið 2018. Fjölgunin utan þess var 3% að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Til samanburðar mældist 29% samdráttur milli ára á höfuðborgarsvæðinu í desember árið 2018, og 19% samdráttur utan þess. Sömu sögu er að segja um desembermánuð ársins 2017 þegar samdráttur mældist einnig. Nýliðinn desembermánuður var því líflegri en oft áður.

Á árinu 2019 í heild sinni áttu sér stað 10.945 fasteignaviðskipti, sem eru 16 viðskiptum færri en árið 2018, að því er fengið er uppúr tölum Þjóðskrár. Þar af voru 7.267 kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu og 3.678 utan þess.

Mesta breytingin var í Kópavogi þar sem kaupsamningum fjölgaði um 11%, en einnig var mikil aukning, eða 10%, á Árborgarsvæðinu, en þar fjölgaði íbúum jafnframt hlutfallslega mest, eða um 6% á síðasta ári. Þó mikil fjölgun íbúa hafi verið á svæðum eins og þar, Mosfellsbæ og Reykjanesbæ síðustu ár, virðist nú sem þar séu byggðar færri íbúðir en áður.

Til að mynda í Mosfellsbæ, þar sem íbúum fjölgaði um 5,3% í fyrra, voru 15% færri íbúðir í byggingu í september samkvæmt talningu SI, heldur en í september árið 2018. Hins vegar voru 31% fleiri íbúðir í byggingu í Hafnarfirði í september 2019 en ári fyrr. Einnig mælist aukning í Reykjavík.