*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 10. september 2020 09:19

Fjórðungi fleiri íbúðir teknar úr sölu

Kaupsamningum fjölgaði um fimmtung milli ára í sumar og hefur fjöldi auglýstra íbúða dregist saman um 18% frá júní.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þinglýstum kaupsamningum í júlímánuði fjölgaði um 20% frá sama mánuði í fyrra að því er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, áður Íbúðarlánasjóður og Mannvirkjastofnun, hafa tekið saman í nýrri skýrslu. Á sama tíma lækkaði leiguverð að raunvirði um 2% á höfuðborgarsvæðinu í júlí frá fyrra ári.

Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hefur heildarvelta innan byggingargeirans dregist saman um 10,2% að raunvirði frá sama tímabili 2019, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var fjárfest fyrir 35 milljarða í íbúðum á öðrum ársfjórðungi þessa árs, sem þó sé á pari við það sem mest gerðist á árunum fyrir hrun var fimmtungssamdráttur frá árinu áður.

Þriðja mánuðinn í röð fjölgaði íbúðum sem teknar voru úr sölu

Húsnæðis og mannvirkjastofnun segir að samt sem áður sé ljóst að enn sé mikið líf á fasteignamarkaði en svokallaður skammtímavísir hagdeildar hennar, sem tekur saman fjölda íbúða úr sölu, sýnir að 24% fleiri íbúðir hafi verið teknar úr sölu síðustu þrjá mánuði miðað við sama tímabil í fyrra.

Jafnframt hafi aukning verið í því að íbúðir hafi verið teknar úr sölu þriðja mánuðinn í röð í ágúst, en fjöldi auglýstra íbúða hefur dregist saman um 18% frá seinni hluta júní. Þar er mesta aukningin meðal nýrra íbúða en þar hefur fjöldinn milli ára dregist saman um 56%.

Jafnframt hefur meðalsölutími eigna styst, en í júlí tók að jafnaði 43 daga að selja fjölbýlishúsaeign og 50 daga að selja sérbýli á höfuðborgarsvæðinu. Í báðum tilvikum hefur tíminn ekki verið styttri frá upphafi mælinga í byrjun árs 2013.

Mest hækkun íbúðaverðs á landsbyggðinni

Þrátt fyrir þetta þá jókst tólf mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs nokkuð á milli mánaða, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Er þá miðað við vísitölu paraðra viðskipta, það er muninn á kaupverði fasteignar frá fyrstu til annarrar sölu hennar. Hækkaði vísitalan um 7,4% á höfuðborgarsvæðinu, 4,4% í nágrannasveitarfélögunum en 9,1% annars staðar á landinu.

Áfram voru met slegin í hreinum nýjum útlánum bankanna, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur hlutdeild óverðtryggðra lána aukist mikið undanfarna mánuði. Aldrei hafa fleiri slík lán verið gefin út og í júlí síðastliðnum, þar sem hrein ný óverðtryggð lán hjá bönkunum á breytilegum vöxtum námu rúmlega 45 milljörðum króna.