Málafjöldi Persónuverndar hefur aukist ár frá ári síðan stofnunin var sett á fót fyrir 17 árum. Á síðasta ári voru málin 2.413 sem er ríflega fjórðungs aukning frá árinu á undan og fjórfalt fleiri mál en bárust Persónuvernd á upphafsdögum hennar árið 2002.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í ávarpi í skýrslunni að ekki einvörðungu hafi verið um fjölgun formlegra mála hjá stofuninni að ræða.

„Símtölum á símatíma fjölgaði jafnframt mikið árið 2018 og mátti suma mánuðina greina um 100% aukningu þeirra miðað við fyrra ár. Til afgreiðslu árið 2018 voru 2.929 mál og afgreidd voru 1758 mál. Óafgreidd mál við árslok 2018 voru 1.171 talsins. Þessum verkefnum sinntu í heildina 14 starfsmenn árið 2018. Á árinu 2018 mátti einnig greina mikla aukningu á umfjöllun um persónuverndarmálefni í fjölmiðlum. Þannig var 656 sinnum fjallað um persónuverndarmálefni í sjónvarpi, útvarpi og helstu dagblöðum í stað 288 skipta árið 2017,“ segir Helga.

Í skýrslunni má sjá að mest aukning hefur orðið í fyrirspurnum, álitum og umsögnum sem voru 1.149 og fjölgaði um næri helming milli ára. Mál vegna vísindarannsókna voru 295 talsins og fjölgaði um 12%. Þá fjölgaði málum vegna tilkynninga um 10% og vorr 240.