Tekjur fjárfestingarbankans Goldman Sach fóru fram úr væntingum greinenda á fjórða ársfjórðungi uppgjörsársins, en hagnaðurinn var 26% undir væntingum vegna 1,1 milljarðs dollara málskostnaðar. Gengi bréfa bankans hafa lækkað um 0,75% það sem af er degi, og fæst hvert bréf bankans nú á 243,71 dal þegar þetta er skrifað.

Heildarhagnaður bankans nam 1,7 milljarði dala, eða sem samsvarar 271,71 milljörðum íslenskra króna, en greinendur höfðu búist við að hagnaðurinn myndi nema um 2 milljörðum dala.

Þó ekki kæmi fram í uppgjöri bankans hvers vegan málskostnaðurinn væri svona hár gerir FT ráð fyrir að það sé vegna hneykslismála í kringum mútur og peningaþvætti þjóðarsjóðs Malasíu, 1MDB, sem töluvert hefur verið í fréttum.

Tekjur bankans jukust milli ára um 23%, í 9,96 milljarða dala, að mestu vegna 63% tekjuaukningar af skuldabréfum. Á móti lækkuðu tekjur af fjárfestingarbankastarfseminni um 6% milli ára.