Á fyrstu átta mánuðunum ársins hefur fjöldi farþega sem ferðast með Primera Air aukist um 23,4% samanborið við sama tímabil í fyrra, og telur nú yfir 700 þúsund manns. Ef spár standast verður fjöldi farþega sem ferðast með flugfélaginu kominn yfir eina milljón við lok árs 2017.

Eins og áður hefur verið tilkynnt mun Primera Air hefja flug til New York og Boston frá nýjum starfsstöðvum í Evrópu, í London, París og Birmingham, frá og með apríl 2018.

Frá og með næsta vori mun Primera Air einnig hefja flug frá Ríga til vinsælasta áfangastaðar fyrirtækisins – borgarinnar Málaga, á Costa del Sol-svæðinu á Spáni. Flugfélagið fær 8 nýjar Airbus 321NEO vélar á næsta ári, og 10 nýjar Max9-ER vélar á árinu 2019, sem mun stuðla að vexti félagsins á nýjum flugleiðum að því er segir í fréttatilkynningu.

Lokuðu á óarðbærar flugleiðir

Fyrstu átta mánuði ársins 2017 hefur heildarhagnaður fyrirtækisins aukist um 16,3%, auk þess sem einingartekjur á hvern sætiskílómetra (Revenue per Available Seat-Kilometer, RASK) hafa aukist um 12,1% borið saman við sama tímabil í fyrra. Tekjur af aukaþjónustu hafa jafnframt aukist um 3,11%.

Anastasija Višņakova, framkvæmdastjóri markaðs- og söludeildar hjá Primera Air segist stolt af árangrinum og segir fjölgun farþega vera vegna aðgerða sem gripið var til í fyrra.

„Við höfum bætt þjónustu okkar með því að kynna til sögunnar þrjá fargjaldaflokka á Evrópuflugleiðunum, lokað á óarðbærar flugleiðir og lagt áherslu á vinsælli flugleiðirnar,“ segir Anastasija „Okkur hefur einnig tekist að auka sætanýtinguna og náð ótrúlegum árangri á því sviði – meðalsætanýting okkar á ársgrundvelli er komin upp í 87%.“

Um Primera Air

Primera Air er áætlunarflugfélag sem flýgur til yfir 70 flugvalla í Evrópu. Primera Air er með höfuðstöðvar í Danmörku og Lettlandi og er hluti af Primera Travel Group, sem samanstendur af ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Eistlandi.

Hægt er að kaupa flugmiða til yfir 70 áfangastaða á vegum Primera Air, þar á meðal nýrra starfsstöðva í Evrópu sem staðsettar eru í London (Stansted, STN), París (Charles de Gaulle, CDG) og Birmingham, Bretlandi (BHX) á vefsvæði fyrirtækisins.