Sala á fólksbílum í janúarmánuði jókst um 25,5% frá sama tímabili í fyrra. Töldu þeir nú 680 stykki samanborið við 542 á síðasta ári og nemur aukningin því 138 bílum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Búist er við áframhaldandi aukningu í sölu nýrra bíla þar sem bílafloti landsmanna er orðinn gamall og þörfin fyrir endurnýjun mikil.

„Bílgreinasambandið spáir því að á þessu ári muni nýskráningar fólksbíla vera í kringum 10.800 stykki. Á árinu 2014 voru nýskráðir 9.536 fólksbílar og er því gert ráð fyrir u.þ.b. 14% aukningu á þessu ári frá því fyrra,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.