Dótturfélag Nýherja, Tempo, hefur fengið Nestlé, Trip Advisor og Mercedes Benz í hóp nýrra viðskiptavina á árinu, en heildarfjöldi viðskiptavina er orðinn yfir 11 þúsund talsins.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að það hafi átt góðu gengi að fagna á Atlassian ráðstefnunni í San Jose í Kaliforníu í Bandaríkjunum en Tempo var aðal styrktaraðili ráðstefnunnar.

Atlassian ráðstefnan var sótt af þúsundum fyrirtækja um allan heim en Atlassian er leiðandi í þróun hugbúnaðar sem ætlað er að auka samvinnu og getu teyma til að leysa margvísleg verkefni og hefur yfir 90.000 viðskiptavini.

Skýjalausnin kynnt

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um komu upp nokkrir hnökrar þegar viðskiptavinir skýjalausnar fyrirtækisins voru fluttir á milli kerfa en félagið sagði tilfærsluna nauðsynlega fyrir frekari vöxt fyrirtækisins.

„Tempo hefur verið einn lykil samstarfsaðila Atlassian síðustu árin og er að auki með eina af vinsælustu og mest seldu hugbúnaðarvöruna á markaðstorgi fyrirtækisins“ segir Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo.

„Við kynntum fjölmargar nýjungar á ráðstefnunni sem munu hjálpa okkur að viðhalda þeim góða vexti sem við höfum notið síðustu árin.“

Meðal þess sem Tempo kynnti á Atlassian ráðstefnunni var Tempo Cloud for Jira, ný skýjalausn sem hjálpar teymum af öllum gerðum að skipuleggja verkefni, fylgja þeim eftir og skila a réttum tíma og á áætlun.

Þá voru kynntar samtengingar við leiðandi skýjalausnir frá Slack og Google sem munu opna fyrir nýja notendur hjá Tempo.

Fjórðungsfjölgun viðskiptavina milli ára

„Viðskiptavinir Tempo er nú komnir yfir 11.000 talsins í yfir 100 löndum og meðal þekktra viðskiptavina þess má nefna Disney, IBM, Oracle, Samsung, BMW og General Electric,“ segir Ágúst.

„Það sem af er árinu 2017 hafa 1.500 nýir viðskiptavinir bæst í hópinn, þar á meðal Nestlé, Trip Advisor og Mercedes Benz. Þetta er 25% fjölgun viðskiptavina frá árinu í fyrra.“

Skrifstofur Tempo eru í Montreal í Kanada, San Francisco í Bandaríkjunum og í Reykjavík.