Úrvalsvísitalan hækkaði um fimmtung á síðasta ári en heildarhækkun skráðra bréfa nam nærri fjórðungi á árinu. Heildarviðskiptin með hlutabréf minnkuðu eilítið milli ára og námu rétt um 600 milljörðum íslenskra króna að því er kemur fram í yfirliti yfir viðskipti í kauphöll Nasdaq Iceland á liðnu ári, 2020.

Mest hækkun var á bréfum Hampiðjunnar, sem er á First North markaðnum, en verð bréfa félagsins hækkaði um þrjá fjórðu á árinu, meðan bréf Icelandair lækkuðu eilítið meira á tímabilinu. Á Aðalmarkaði var hækkun bréfa Kviku banka sú mesta, eða um 63,5% á árinu, en þar á eftir komu TM og Origo með bæði rétt yfir helmingshækkun í verði.

Allar skuldabréfavísitölur kauphallarinnar hækkuðu einnig á árinu, um á milli 6 og 7%, en veltan með skuldabréf jókst um fjórðung í kauphöllinni á síðasta ári samanborið við árið áður. Í heildina nam veltan 1.768 milljörðum, eða tæplega 1,8 billjónum íslenskra króna, en þar af voru ríflega 1,1 billjón með bréf ríkisins. Á árinu voru gefin út sjálfbær skuldabréf fyrir um 50 milljarða.

Í desember var mesti fjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði í einum mánuði í 12 ár, auk þess sem hann var næst veltumesti mánuðurinn á sama tímabili. Þá var fjöldi viðskipta með Icelandair Group þau mestu með eitt félag í einum mánuði (4.974 viðskipti) í sögu íslensks hlutabréfamarkaðar.

Hlutabréf:

•    Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 20,5% á árinu og stendur nú í 2.555 stigum. Heildarvísitala hlutabréfa (OMXIPI) hækkaði um 24,3%.
•    Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 602 milljörðum eða 2.417 milljónum á dag.  Til samanburðar var veltan með hlutabréf árið 2019, 612 milljarðar, eða 2.476 milljónir á dag. Veltan dróst því saman um 1,6% á milli ára.
•    Mest viðskipti á árinu voru með bréf Marel (MAREL), 103,2 milljarðar, Arion banka (ARION), 79,4 milljarðar, Festi (FESTI), 43,7 milljarðar, Vátryggingafélag Íslands (VIS), 41,8 milljarðar og Símans (SIMINN), 41 milljarður.
•    Fjöldi viðskipta árið 2020 voru 56.337 talsins eða um 226 á dag. Fjöldi viðskipta árið 2019 voru 35.641 eða um 144 á dag og jukust því um 58% á milli ára. Er þetta mesti fjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði í 12 ár.
•    Flest viðskipti voru með bréf Icelandair Group (ICEAIR), 17.218, Marel (MAREL), 6.070, Arion banka (ARION), 4.233, Vís (VIS), 2.472 og Kviku banka (KVIKA) 2.429.
•    Óhætt er að segja að desember hafi verið sögulegur mánuður á hlutabréfamarkaði en fjöldi viðskipta var sá mesti í einum mánuði (9.515 viðskipti) í ríflega 12 ár, auk þess sem mánuðurinn var sá næstveltuhæsti yfir sama tímabil. Þá var fjöldi viðskipta með Icelandair Group þau mestu með eitt félag í einum mánuði (4.974 viðskipti) í sögu íslensks hlutabréfamarkaðar.
•    Á Aðalmarkaði hækkaði verð bréfa Kviku banka mest á árinu eða um 63,5% en þar á eftir bréf TM sem hækkuðu um 53,6% og bréf Origo sem hækkuðu um 50,9%.  Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Hampiðjunnar mest eða um 75%.
•    Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 1.563 milljarðar samanborið við 1.251 milljarð í lok árs 2019 sem er 24% hækkun milli ára. Í lok árs voru 23 félög skráð, þar af 4 á Nasdaq First North.

Verðbreytingar hlutabréfa á árinu 2020:

  • Hækkanir - % breyting
  • Hampiðjan    75,0%    ↑
  • Kvika banki    63,5%    ↑
  • TM    53,6%    ↑
  • Origo    50,9%    ↑
  • Síminn    49,8%    ↑
  • Sjóvá-Almennar tryggingar    46,3%    ↑
  • Hagar    37,2%    ↑
  • Eimskipafélag Íslands    36,1%    ↑
  • Festi    33,2%    ↑
  • Vátryggingafélag Íslands    32,9%    ↑
  • Marel    28,3%    ↑
  • Brim    28,1%    ↑
  • Iceland Seafood International     26,9%    ↑
  • Kaldalón    21,2%    ↑
  • Eik fasteignafélag    12,6%    ↑
  • Sýn    11,4%    ↑
  • Arion banki    10,1%    ↑
  • Skeljungur    8,7%    ↑
  • Reginn    2,9%    ↑
  • Sláturfélag Suðurlands    0,0%    →
  • Reitir Fasteignafélag    -2,9%    ↓
  • Klappir Grænar lausnir    -6,5%    ↓
  • Icelandair Group    -78,3%    ↓

Skuldabréf

•    Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.768 milljörðum á árinu sem samsvarar 7,1 milljarða veltu á dag, samanborið við 5,7 milljarða veltu á dag árið 2019. Þetta er 25% meiri velta en í fyrra. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 1.146 milljörðum og viðskipti með bankabréf 388 milljörðum.
•    Útgáfa sjálfbærra skuldabréfa nam rúmlega 49 milljörðum króna á árinu og stendur heildarútgáfa nú í 75,6 milljörðum króna. Í lok árs voru tíu skuldabréf skráð á markað Kauphallarinnar fyrir sjálfbær skuldabréf og fjölgaði um sex á árinu.
•    Á árinu hækkuðu allar skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 6,1% og stendur í 1.690 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 6,5% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 6,8%.

„Það er óhætt að segja að árið hefur verið mjög óvenjulegt á markaði en Covid-19 skapaði mikinn óróa hér sem annars staðar. En markaðurinn stóð veðrið af sér. Úrvalsvísitalan hækkaði t.a.m. um 20,5% á árinu og skráð félög öfluðu sér 29 milljarða á markaði í haust auk þess að nýta hlutabréf sín sem gjaldmiðil við yfirtökur,“ segir Finnbogi Rafn Jónsson, forstöðumaður viðskipta og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.

„Hæst bar útboð Icelandair Group sem var það þriðja stærsta í sögu markaðarins. Þar lét almenningur til sín taka svo um munaði og tvöföldun varð á fjölda einstaklinga á markaðnum. Í kjölfarið sáum við fjölda viðskipta með hlutabréf aukast svo um munar, sem rekja má að töluverðu leyti til meiri áhuga almennings og sögulega lágra vaxta.“

Finnbogi Rafn segir að ekki hafi verið meiri viðskipti á skuldabréfamarkaði síðan árið 2015.

„Þar stendur einnig upp úr góður gangur í útgáfu sjálfbærra skuldabréfa og að ríkið nýtti sér markaðinn vel til fjármögnunar. Við lítum björtum augum á nýtt ár, en aðstæður eru hagfelldar til fjármögnunar á markaði. Þá mun innkoma okkar í vísitölur MSCI auka veg markaðarins og möguleg skráning Íslandsbanka yrði sannarlega lyftistöng.“