Kostnaður ríkisins vegna almannatrygginga hefur tvöfaldast frá árinu 2013 en um fjórðungur allra skatttekna og tryggingagjalda sem renna til ríkisins fara í að greiða fyrir málaflokkinn að því er Morgunblaðið segir frá.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fyrir ríkisstjórn í gær, en síaukinn hluti verðmætasköpunar í landinu hafa verið að renna til tilfærslukerfa og fjárframlaga ríkissjóðs á undanförnum árum.

Bjarni segir útgjöldin hafa snarhækkað og því skjóti skökku við að tala um skerðingar í þessu samhengi.

„Við höfum verið að styrkja þessi kerfi, og þau hafa fylgt launaþróun í landinu, en við höfum hækkað launin undanfarinn áratug meira en nokkurt annað land OECD,“ segir Bjarni sem segir að auki að mikil áhrif verði af því að þjóðin sé að eldast hlutfallslega.

„Við viljum ræða við vinnumarkaðinn um heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu, þar á meðal hækkun lífeyristökualdurs í áföngum. Það má öllum vera ljóst að þessi vöxtur er ekki sjálfbær. Það er mjög sláandi þegar 1/4 teknanna fer í málaflokk, sem hefur verið í 14-15%.“