„Eigið fé fyrirtækja í byggingariðnaði þurrkaðist upp í kjölfar hrunsins en byggist nú hægt og bítandi upp. Engu að síður var fjórðungur fyrirtækja með heildareignir yfir tíu milljónum í greininni með neikvætt eigið fé í árslok 2013,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið.

Ásdís heldur erindi í dag á Stefnumóti byggingariðnaðarins um hagræna þýðingu og stöðu íslensks byggingariðnaðar. Hún segir aðkomu stjórnvalda í gegnum tíðina hafa ýkt uppsveiflur í byggingarstarfsemi og orðið til þess að aðlögun í niðursveiflum hefur verið brattari en ella. Telur hún mikilvægt að undirliggjandi efnahagsþættir séu grundvöllur vaxtar í byggingariðnaði fremur en aðgerðir stjórnvalda.

Ásdís segir jafnframt byggingariðnaðinn vera þá atvinnugrein sem sé einna mest útsett fyrir hagsveiflum. „Framlag byggingastarfsemi til landsframleiðslu var 4,9% árið 2013 en mældist hæst 11,6% árið 2007. Atvinnugreinin skrapp því verulega saman á einungis tveimur árum.“