Heimilum í leiguhúsnæði á almennum markaði hefur fjölgað hlutfallslega úr 15,4% árið 2007 í tæp 25% árið 2013. Árið 2012 voru um 13% Íslendinga á almennum leigumarkaði sem er heldur lægra en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í nýjum Félagsvísum Hagstofunnar sem velferðarráðuneytið vísar til.

Félagsvísar eru safn fjölbreyttra tölulegra upplýsinga um velferð, efnahag, heilsufar og félagslegar aðstæður íbúa í landinu. Þeir draga upp mynd af þróun samfélagsins og lífsgæðum landsmanna og auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þjóðfélagsþróun og samfélagsbreytingum. Í frétt velferðarráðuneytisins segir að gerð félagsvísanna hafi verið að frumkvæði velferðarvaktarinnar árið 2009 og fyrsta skýrslan með safni félagsvísa fyrir árin 200-2010 leit dagsins ljós í febrúar árið 2012. Í júní sama ár var gerður samningur milli velferðarráðuneytisins og Hagstofu Íslands sem felur í sér að Hagstofan annast uppfærslu og birtingu félagsvísanna.

Leigjendum á almennum markaði hefur ekki aðeins fjölgað, heldur hefur samsetning hópsins breyst, bæði hvað varðar aldur, heimilisgerðir og tekjur. Eftir 2007 óx hlutfall fólks á aldrinum 25-34 ára á almennum leigumarkaði hraðar en í eldri aldurshópum, úr 8,6% í 23,7%. Á sama tíma hækkaði hlutfall leigjenda á almennum markaði í lægsta tekjubilinu hraðar en á hærri tekjubilum, úr 9,5% í 28,9%. Þá hækkaði hlutfallið á meðal heimila einhleypra með eitt eða fleiri börn úr 9,7% í 27,7%, sem er meiri aukning en mælist fyrir aðrar heimilisgerðir.