Tæplega 26% heimila eru áskrifendur að Skjá Einum, samkvæmt könnun MMR og sjónvarpsstöðin greinir frá. Um er að ræða mesta fjölda áskrifenda síðan Skjár Einn varð áskriftarstöð. Sambærileg könnun sem gerð var fyrir ári benti til að áskriftarhlutfall væri 21,6%.

Stöðin læsti dagskrá sinni síðari hluta árs 2009, eftir að hafa verið í opinni dagskrá frá upphafi. Til viðbótar við fleiri áskrifendur er nú íslenskur þáttur í fyrsta sinn í efsta sæti yfir leigða þætti á SkjáFrelsi. Skjár Einn upplýsir að þátturinn Makalaus, þáttur byggður á bók Tobbu Marínós, hafi verið leigður yfir tíu þúsund sinnum.