*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 20. janúar 2020 09:14

Fjórðungur hlynntur ríkisstuðningi

Stuðningsmenn Samfylkingar hrifnastir af frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur um stuðning til fjölmiðla.

Ritstjórn
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Einungis 25% þeirra sem tóku afstöðu eru hlynntir fjárstuðningi ríkisins til fjölmiðla og 44% eru andvíg slíkum hugmyndum að því er Fréttablaðið greinir frá uppúr rannzókn Zenter. Loks eru 30% hvorki andvíg né hlynnt frumvarpinu sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett fram um 400 milljónir árlega til einkarekinna fjölmiðla, með skilyrðum.

Lilja segist samt sem áður fagna því að fjórðungur styðji málið og bendir á hve stórt hlutfall taki ekki afstöðu og segist hægt að una við það. Loks segir hún að stuðningskerfi hafi gefist vel í hinum Norðurlöndunum, en þar er víða greitt fyrir hverja áskrift.

Frumvarpið liggur nú fyrir hjá allsherjar- og menntamálanefnd, en frestur til að senda inn umsagnir um málið rann út 10. janúar síðastliðinn.

Flokksmenn ráðherrans ekki hrifinn og enn síður Sjálfstæðismenn

Nærri þriðjungur, eða 32% stuðningsmanna Framsóknarflokksins, flokks menntamálaráðherra, styðja frumvarpið, en 42% eru andvíg frumvarpinu. Enn minni stuðningur er hjá fylgismönnum stærsta stjórnarflokksins, en einungis 19% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins styðja frumvarpið, og 55% eru andvíg.

Jafnframt er helmingur stuðningsmanna Miðflokksins andvíg en 21% hlynnt, en mestur stuðningur mælist meðal stjórnarandstöðuflokksins Samfylkingar, eða 44%, meðan 37% þeirra eru andvíg frumvarpinu.

Hjá flokki forsætisráðherra, Vinstri grænum eru 35% hlynnt, en 33% andvíg frumvarpinu, sem er sama hlutfall og er hlynnt því hjá Viðreisn, en þar eru 38% á móti frumvarpinu. Ýmsir aðilar hafa lagt til annað hvort breytingar á frumvarpinu, þá helst til þess að auka enn frekar vægi minni fjölmiðla, eða því verði einfaldlega hafnað, líkt og í tilfelli Viðskiptaráðs.