43,2% kjósenda er ýmist mjög eða frekar fylgjandi því að birta niðurstöður skoðanakannana á kjördag eða daginn fyrir kosningar, samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR . Fram kemur í niðurstöðunum að 26,2% kjósenda sé mjög andvígur því eða frekar andvígur. 31,5% er hvorki fylgjandi því né andvígur. Athygli vekur að hlutfall þeirra sem eru fylgjandi því að fjölmiðlar fái heimild til að birta niðurstöður skoðanakannana á kjördag eða daginn fyrir kosningar jókst með hækkandi aldri.

Þá kom fram í niðurstöðum skoðanakönnunarinnar að hlutfall þeirra sem voru fylgjandi auknum heimildum fjölmiðla til að birta niðurstöður kosnina á kjördag eða daginn fyrir kosningar hækkar nokkuð á milli mælinga. Í maí í fyrra voru 34,5% fylgjandi því að birta niðurstöður skoðanakanna daginn fyrir kosningar eða á kjördegi og sögður 26,2% þeirra sem tóku afstöðu vera því andvíg, Í maí í fyrra voru 31,1% þeirra sem tóku þátt í könnuninni því andvíg.

Hlutfallslega fleiri þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina voru fylgjandi því að fjölmiðlum verði veitt heimild til að birta niðurstöður skoðanakannana á kjördag eða daginn fyrir kosningar en þeirra sem ekki sögðust styðja ríkisstjórnina. Af þeim sem tóku afstöðu voru 52,3% þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina fylgjandi, borið saman við 39,7% þeirra sem ekki sögðust styðja ríkisstjórnina.

Þegar afstaða var skoðuð eftir stuðningi við stjórnmálaflokka kom í ljós að hlutfall þeirra sem voru fylgjandi því að fjölmiðlum verði veitt heimild til að birta niðurstöður skoðanakannana á kjördag eða daginn fyrir kosningar var hæst á meðal þeirra sem sögðust styðja Samfylkinguna og Vinstri græn en lægst á meðal þeirra sem sögðust styðja Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 54,3% þeirra sem sögðust kjósa Vinstri græn og 52,2% þeirra sem sögðust kjósta Samfylkinguna vera fylgjandi. Til samanburðar sögðust 36,7% þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn og 39,0% þeirra sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn vera fylgjandi.

Könnunin var gerð dagana 5. til 8. apríl síðastliðinn. Einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og svöruðu 906.