Slitastjórn Glitnis hefur birt tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem kröfuhafar slitabúsins eru upplýstir um aðgerðir stjórnvalda við afnám hafta sem kynntar voru í Hörpu í hádeginu.

Þar segir að slitastjórninni sé kunnugt um að kröfuhafar Glitnis, sem eigi fjórðung krafna á hendur búinu, hafi að undanförnu átt í viðræðum við stjórnvöld um hin svonefndu stöðugleikaskilyrði.

Ekki hefur komið fram með nákvæmum hætti hvað felst í skilyrðunum en þeim er ætlað að skila verulegum greiðslum til íslenska ríkisins. Í kynningu stjórnvalda kom fram að slitabúin gætu komist hjá greiðslu stöðugleikaskatts með því að mæta þessum skilyrðum fyrir næstu áramót, en stærstu kröfuhafar bankanna munu hafa lýst yfir vilja til þess að ganga að þeim.

Slitastjórnin kveðst nú vera að fara yfir aðgerðir stjórnvalda og hvaða áhrif þær muni hafa á slitabúið og kröfuhafa þess. Náist meirihluti fyrir því að gangast að stöðugleikaskilyrðunum meðal kröfuhafa muni slitastjórnin leitast við að leggja til nauðasamninga á þeim grundvelli.

Lesa má tilkynningu slitastjórnarinnar í heild sinni hér.