
Mestu viðskiptin eða fyrir 627,5 milljónir króna voru með bréf Reita á hlutabréfamarkaði í dag, en heildarviðskiptin á markaðnum í kauphöll Nasdaq í dag námu 2,4 milljörðum króna.
Í þeim hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,06% og náði því lokagildi hennar nýju hámarki í 2.247,30 stigum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær fór hún í síðustu viku yfir síðasta hámark sitt frá 9. september.
Næst mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 310,9 milljónir króna, en gengi bréfa bankans lækkuðu um 0,63% í þeim, niður í 79 krónur, sem jafnframt var þriðja mesta lækkunin á bréfum í einu félagi í dag.
Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Festi, eða fyrir 231,4 milljónir króna, en hækkun þeirra var sú næst mesta í kauphöllinni í dag, eða um 2,16%, upp í 153,75 krónur.
Mest hækkun var á hinu dagvöru- og olíusölufélaginu Högum, eða um 2,83%, upp í 54,50 krónur, í 230 milljóna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin var svo á bréfum Icelandic Seafood, eða um 2,11%, í 96 milljóna viðskiptum og endaði gengi bréfanna í 9,20 krónum.
Mest lækkun var hins vegar á bréfum Icelandair, eða um 1,05%, niður í 0,94 krónur, og er gengi bréfa flugfélagsins þar með 6% undir útboðsgenginu í 23 milljarða króna hlutafjárútboði félagsins um miðjan síðasta mánuð.
Næst mest lækkun var á gengi bréfa Origo, eða um 0,91%, niður í 32,75 krónur í 93 milljóna króna viðskiptum.
Gengi krónunnar hélt áfram að veikjast gagnvart evrunni, svissneska frankanum og krónum hinna Norðurlandanna líkt og í gær, en íslenska krónan styrktist líkt og þá bæði gagnvart Bandaríkjadal og japanska jeninu, auk breska sterlingspundsins.
Þannig var styrking evrunnar 0,24% gagnvart krónunni og fæst evran þá nú á 163,46 krónur, svissneski frankinn styrktist um 0,11%, upp í 152,35 krónur, danska krónan styrktist um 0,22% gagnvart þeirri íslensku, eða upp í 21,961 krónu, sænska krónan styrktist um 0,63%, upp í 15,804 krónur og norska krónan styrktist um 0,25%, og fæst hún nú á 14,914 krónur.
Bandaríkjadalur veiktist um 0,16% gagnvart krónu, og fæst nú á 138,15 krónur, breska sterlingspundið veiktist um 0,51%, niður í 178,76 krónur og japanska jenið veiktist um 0,32%, niður í 1,3083 krónur.