Mest velta var með bréf Símans í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi, eða fyrir 293,9 milljónir króna af 1,1 milljarðs króna heildarveltu, sem samsarar rétt tæplega fjórðungi allra viðskiptanna, og var hækkun gengis bréfanna sú þriðja mesta allra félaga í kauphöllinni í dag..

Hækkuðu bréf fjarskiptafyrirtækisins um 2,05%, upp í 7,48 krónur, í aðdraganda þess að félagið skilaði árshlutauppgjöri í dag sem eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá skilaði félaginu 13% meiri hagnaði en á sama tíma fyrir ári.

Úrvalsvísitalan hækkaði eilítið á ný í viðskiptum dagsins eftir ríflega lækkun gærdagsins, eða um 0,06%, upp í 2.258,09 stig, en hún á eitthvað í að ná sögulegum hápunkti sínum frá því á föstudaginn í síðustu þegar lokagengi hennar fór yfir 2.300 stiga markið.

Óskabarnið hækkaði mest

Mest hækkunin var á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 3,3%, upp í 188 krónur, í 27 milljóna króna viðskiptum, en félagið var löngum kallað Óskabarn þjóðarinnar. Icelandair, sem löngum var nátengt því fyrrnefnda, hækkaði næst mest eða um 2,15%, í 69 milljóna króna viðskiptum en bréf félagsins eru enn 5% undir útboðsgenginu um miðjan síðasta mánuð, eða í 0,95 krónum.

Mest lækkun var  hins vegar á bréfum Origo, eða um 1,85%, niður í 34,55 krónur, í litlum 18 milljóna króna viðskiptum. Næst mest var lækkun bréfa fjarskiptafélagsins Sýnar, eða um 1,68%, í 32 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfa félagsins eftir það 35,10 krónum.

Loks var þriðja mesta lækkunin á bréfum Iceland Seafood, eða um 1,35%, í 187 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Arion banka, eða fyrir 125,2 milljónir króna, en bréf bankans stóðu í stað í þeim í 80 krónum.

Evran stóð í stað gagnvart krónu

Krónan stóð í stað í viðskiptum dagsins gagnvart evru, sem enn fæst á 164,56 krónum, og eins og gefur að skilja vegna fastgengisfyrirkomulagsins milli evru og dönsku krónunnar, einnig gagnvart henni, sem enn fæst á 22,117 krónum.

Bandaríkjadalur veiktist hins vegar gagnvart krónu, eða um 0,13%, og fæst hann nú á 139,06 krónur og sama gerði svissneski frankinn, en hann veiktist um 0,05%, niður í 153,39 krónur.

Breska pundið styrktist gagnvart íslensku krónunni um 0,24%, upp í 181,70 krónur, japanska jenið styrktist um 0,28%, upp í 1,3312 krónur, sænska krónan styrktist svo um 0,32%, upp í 15,983 krónur og loks styrktist norska krónan mest eða um 1,11% gagnvart krónunni í 15,227 krónur.