Efnishyggja Íslendinga jókst á árunum 2005-2007 sem breyttist síðan í meiri hughyggju. Nýjustu mælingar benda til þess að Íslendingar sé aftur að færast í áttina að efnishyggju. Þó er efnishyggjan sem mældist árið 2007 mjög fjarlæg. Þetta kemur fram í Straumum, viðskiptariti Capacent, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni.

Þar kemur fram eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um, að verðvitun neytenda er mun meiri en hún var. Íslendingar leita að ódýrari valkostum og nýta sér fleiri tilboð en áður. Þar kemur sömuleiðis fram að fjórðungur þjóðarinnar ætlar að reyna að draga mikið úr útgjöldum og 80% ætla að leggja áherslu á ráðdeild í rekstri heimilisins á næstu tólf mánuðum.

Þá kemur fram í umfjöllun Strauma, að neytendur forgangsraða þegar kemur að því að draga úr útgjöldum. Þeim fækkar sem ætla að spara við sig ferðalög og fáir vilja draga úr útgjöldum í fjarskipti. Fram kemur að líklegast megi rekja það til aukins mikilvægis netnotkunar í daglegu lífi fólks þar sem fleiri nota síma og spjaldtölvur.