WOW air flutti 412.583 þúsund farþega í fyrra, sem er fjórföldun frá árinu áður. Þá flaug félagið með 112.223 þúsund farþega. Sætaframboð árið 2012 var 178.096 sæti en jókst á nýliðnu ári í 506.236 sæti. Framboðsaukning nam því 266% á milli ára. Sætanýting hjá flugfélaginu árið 2013 var 81%.

„Ég þakka þennan frábæra árangur því að við höfum ítrekað staðið við loforð okkar að vera ódýrasta og stundvísasta flugfélagið á Íslandi ásamt dugnaði og þjónustulund starfsfólks WOW air. Við erum þakklát fyrir þau frábæru viðbrögð sem við höfum fengið bæði hér á landi og erlendis,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW, í tilkynningu.

Nýliðið ár var viðburðaríkt hjá WOW air en fyrirtækið fékk flugrekstrarleyfi í október ásamt því að starfsmannafjöldi tvöfaldaðist á árinu en um 170 manns starfa nú hjá félaginu.

Eins og VB greindi frá í gær var síðasta ár einnig gjöfult fyrir Icelandair Group. Met var slegið í millilandaflugi hjá Icelandair. Farþegarnir voru 2.257.305 talsins og fjölgaði þeim um 12% á milli ára.