Rannsóknargjald sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur rukkar fyrirtæki fyrir hönd Mat- ís er fjórfalt hærra en það rannsóknargjald sem greitt er í öðrum landshlutum. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Félags atvinnurekenda sem ber heitið Eftirlitsgjöld á atvinnulífið: Eru eftirlitsgjöld ríkisins lögmæt, sanngjörn og hagkvæm? Í skýrslunni kemur fram að eftirlitsgjöld sem lögð séu á atvinnulífið nemi hundruðum og að mikilvægt sé að setja mun skýrari reglur um gjaldtöku faggiltra aðila, sem falið er að sinna opinberu eftirliti, því ekki liggi fyrir skýrar reglur né gagnsæi um hvaða hlutverk eða verkefni sé heimilt að framselja til faggiltra aðila.

Gjaldskrár fjalla ekki um gjöld vegna rannsókna

Samkvæmt skýrslunni er í gjaldskrám heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna ekki mælt fyrir um fjárhæð gjalda vegna sýnatöku og rannsókna á sýnum hjá faggiltum aðilum þrátt fyrir að ljóst sé að heilbrigðiseftirlitin nýti sér þjónustu slíkra aðila. Stór hluti kostnaðar eftirlitsþega af matvælaeftirliti eru gjöld vegna sýnatöku og rannsókna. Telur félagið það því skipta miklu máli að slík gjöld styðjist við skýrar heimildir og fylgt sé settum reglum við innheimtu þeirra.

Eins og staða mála er um þessar mundir er þannig ómögulegt fyrir eftirlitsskyld fyrirtæki að átta sig fyrirfram á hvað slíkar rannsóknir muni kosta. Samkvæmt Félagi atvinnurekenda er slík framkvæmd í ósamræmi við þær kröfur sem gera verður til álagningar og innheimtu eftirlitsgjalda á vegum hins opinbera. Við þetta bætist að rannsóknargjaldið, sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur rukkar fyrir hönd Matís, er fjórfalt hærra en rannsóknargjald sem greitt er t.d. á Austurlandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.