Samkvæmt nýrri skýrslu Félags atvinnurekenda nema gjöld sem lögð eru á atvinnulífið hundruðum, en samtals eru um sextíu gjaldtökuheimildir vegna eftirlitsgjalda í lögum.

Síðan er hver og ein þeirra útfærð með reglugerðum eða gjaldskrám sem geta kveðið á um tugi gjalda, að því er segir í frétt félagsins um skýrsluna.

Óljóst orðaðar heimildir

Sem dæmi virðist rannsóknarkostnaður heilbrigðiseftirlita mjög mismunandi eftir landshlutum en hann er fjórfalt hærri í Reykjavík en á Austurlandi.

Skýrslan segir gjaldtökuheimildirnar oft óljóst orðaðar, þá sérstaklega um kostnaðarliðina sem liggja til grundvallar gjaldtökunni, en það heyrir til undantekninga að opinber gjöld liggi fyrir um sundurliðun kostnaðar vegna álagningar eftirlitsgjalda.

Veita ekki upplýsingar um ástæður

Að sama skapi heyrir til undantekninga að eftirlitsaðilar veiti upplýsingar um hvaða ástæður liggi að baki hækkun gjaldanna en félagið segir hvort tveggja nauðsynlegt svo fyrirtæki geti áttað sig á forsendum fyrir fjárhæð gjaldsins og hvort innheimtan sé lögmæt.

Jafnframt hafa ráðherrar í mörgum tilvikum ekki sinnt þeirri skyldu sinni að setja reglur um tíðni og umfang eftirlits, heldur geti eftirlitsstofnanirnar ráðið því sjálfar og þar með kostnaði fyrirtækja af eftirlitinu.

FA setur fram í skýrslunni ýmsar tillögur til úrbóta:

  • Gjaldtökuheimildir verði endurskoðaðar með tilliti til sjónarmiða um skýrleika.
  • Eftirlitsgjöld séu ekki í formi skatta sem leggjast á veltu fyrirtækja.
  • Eftirlitsskyldum fyrirtækjum séu veittar auknar upplýsingar um grundvöll einstakra gjalda og tilefni hækkana á gjöldum. Ekki verði heimilt að innheimta eftirlitsgjöld af fyrirtækjum nema sundurliðun þeirra og útreikningur hafi verið birt opinberlega.
  • Settar verði skýrari reglur um tíðni og umfang opinbers eftirlits. svo það sé ekki eftirlitsstofnunum í sjálfsvald sett.
  • Settar verði skýrari reglur um störf faggiltra aðila og gjaldtöku vegna þjónustu þeirra þegar þeir sinna opinberu eftirliti.