Gunnar Helgi Kristinsson
Gunnar Helgi Kristinsson
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Helstu tíðindin sem lesa má út úr skoðanakönnunum daginn fyrir sveitarstjórnarkosningar, er að nýir flokkar njóta víða mikils stuðnings á meðan fjórflokkurinn á erfitt uppdráttar. Sú þróun hefur verið í gangi síðan í hruninu og endurspeglaðist til að mynda vel í Alþingiskosningunum í fyrra. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í Stjórnmálafræði, segir athyglisvert að þrátt fyrir að tæp sex ár séu liðin frá hruni, þá sé gamla kerfið ekkert að jafna sig. Þvert á móti virðast nýir flokkar fá meira fylgi en nokkurn tímann áður og á það við um landið allt.

Samkvæmt nýjustu könnun MMR á fylgi flokkanna í Reykjavík myndi Samfylkingin fá tæp 33% atkvæða, Björt Framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn fengju rúm 20%. Píratar, VG og Framsókn og flugvallarvinir fengju um 7% atkvæða hvert um sig en fylgi annarra flokka mældist minna en 3%.

Gunnar Helgi segir ekki ólíklegt að skoðanakönnunin geti spáð vel fyrir um úrslit kosninganna á morgun. „Venjulega þegar komið er nálægt kosningum þá ertu kominn með nokkuð góða mælingu. Því nær sem dregur kosningum, því færri eru yfirleitt óákveðnir og því meira forspárgildi hafa kannanir.“

Gunnar Helgi segir merkilegt að líta til þess að hlutföllin virðast talsvert öðruvísi í Reykjavík en annars staðar. Samfylkingin virðist vera sterkari þar en annars staðar á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er að veikjast meira í Reykjavík heldur en á flestum stöðum. Staðbundnir þættir virðast því hafa nokkuð að segja, þrátt fyrir að landsmálin skipti líka máli.