*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 30. júní 2021 18:45

Fjórföld eftirspurn hjá Solid Clouds

Um 2.700 fjárfestar tóku þátt í hlutafjárútboði Solid Clouds en alls bárust tilboð að upphæð 2,8 milljarðar króna.

Ritstjórn
Stefán Gunnarsson og Stefán Björnsson, stofnendur Solid Clouds
Aðsend mynd

Alls bárust tilboð að andvirði 2,8 milljarða króna í hlutafjárútboði íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Solid Clouds sem lauk klukkan 16 í dag. Í tilkynningu félagsins segir að rétt undir 2.700 fjárfestar hafi tekið þátt í útboðinu. Stefnt er að því að viðskipti með hlutabréf Solid Clouds á First North markaðnum hefjist þann 12. júlí næstkomandi.

Í útboðinu bárust tilboð að andvirði 1,8 milljarða króna í tilboðsbók A, sem nær utan um tilboð undir 15 milljónum. Í tilboðsbók B, fyrir tilboð yfir 15 milljónum, bárust tilboð að fjárhæð tæplega 900 milljónum króna.

Alls voru 40 milljónir hlutir í boði í útboðinu en félagið hefur heimild til að stækka útboðið um 18 milljónir til viðbótar. Ekki kemur fram hvort útboðið verður stækkað en tilkynnt verður um úthlutun á morgun. Í útboðslýsingu kom fram að leitast verður við að skerða ekki áskriftir undir 300.000 krónur.

Verði útboðið stækkað mun nýja hlutaféð samsvara um 32% hlut í fyrirtækinu fyrirtækisins, sem gefur Solid Clouds um 2,3 milljarða króna markaðsvirði .

Sjá einnig: Solid Clouds gefur út nýjan Starborne leik

„Við erum þakklát fyrir þann gífurleg áhuga sem Solid Clouds hefur fengið frá fjárfestum. Þetta er minningarverð stund og spennandi skref í sögu fyrirtækisins. Fyrirtækið er nú í góðri stöðu fyrir næsta vaxtafasa og þetta útboð mun gera okkur kleift að grípa framtíðartækifæri,“ segir Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds í tilkynningunni.

Stikkorð: útboð First North Solid Clouds