Bílaumboðin Askja og Kia sameinuðust formlega árið 2010, en þá var markaðshlutdeild Kia hér á landi um 3%. Síðustu fjögur ár hefur suður-kóreska bílamerkið hins vegar verið með tveggja stafa hlutdeild; annað mest selda merki landsins.

„Við enduðum árið í fyrra með rétt um 13% markaðshlutdeild. Þetta hefur verið það merki sem hefur vaxið hvað hraðast undanfarin ár, bæði á Íslandi og í Evrópu. Árið 2010 var sjö ára ábyrgð á nýjum bílum kynnt til sögunnar,“ sem hefur hjálpað mikið til að sögn Jóns Trausta. „Þetta er einfaldlega vottur um að framleiðandinn treystir sinni framleiðslu. Kia hefur veitt okkur góðan stuðning og árangurinn hefur verið eftir því,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

Askja tók svo við Honda-umboðinu síðastliðið haust, eftir langt samtal við Bernhard-fjölskylduna. „Ástæðan fyrir því að við vildum Honda var meðal annars sú að okkur fannst merkið passa vel inní okkar vöruval. Í fyrsta lagi er ákveðin áhættudreifing fólgin í því að vera með framleiðendur frá mismunandi löndum. Í öðru lagi hefur Honda vörumerkið verið mjög sterkt á Íslandi og er með skýra framtíðarsýn varðandi rafbíla og mun á næstu árum koma með mjög sterkar lausnir á því sviði sem við teljum henta Íslandi.“

Borgarrafbíll á innan við fjórar milljónir
Nú í sumar mun Askja kynna nýjan rafbíl: Honda e. „Hann er bara markaðssettur sem borgarbíll. Léttur og hrikalega skemmtilegur bíll, með drægni upp á 200-220 kílómetra, sem er meira en nóg fyrir innanbæjarakstur. Með þessu hefur tekist að halda verðinu niðri, og þess vegna mun hann kosta innan við fjórar milljónir.“

Honda e er auk þess hægt að hlaða hraðar en ýmsar eldri gerðir rafbíla, sem flestar geta aðeins tekið um 50 kílóvatta straum, á meðan Hondan tekur 100 kílóvött. Hann er því aðeins um 20 mínútur að ná 80% hleðslu á góðri hraðhleðslustöð. Honda hefur enn fremur sett sér það markmið að innan þriggja ára verði sjö mest seldu bíltegundir þeirra komnar í tvinn- eða hreina rafútgáfu. Honda selur auk þess mun fleira en bíla. „Þeir eru líka að selja vörur eins og iðnaðartæki, sláttuvélar, mótorhjól, fjórhjól, vatnsdælur, rafstöðvar og áfram mætti lengi telja.“

Bjartsýnn á að endurheimta toppsætið
Þriðja bílamerki Öskju, sem jafnframt var það fyrsta, Mercedes-Benz, hefur verið mest selda lúxusbílamerkið um langa hríð hér á landi, en á síðasta ári missti það titilinn til Audi. Jón Trausti er þó vongóður um að ná honum aftur .

„Okkur vantaði einfaldlega rafmagns- og tengiltvinnbíla. Þeir eru nú komnir, með mun meiri rafdrægni en eldri tengiltvinnbílar, og fáanlegir í fjölda útfærsla. Við erum því mjög bjartsýn á að ná toppsætinu aftur á þessu ári.“

Nánar er rætt við Jón Trausta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .