Velta kvikmyndaframleiðslufélagsins Pegasusar ehf. fjórfaldaðist milli ára en hún nam nam 1,71 milljarði króna í fyrra miðað við 418 milljónir króna árið 2019. Rekstrargjöld jukust samhliða aukinni veltu og námu 1,63 milljörðum króna á árinu.

Félagið framleiddi þættina The Challenge, eða Áskorunin, fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina MTV í fyrra en félagið fékk um 311 milljónir endurgreiddur úr ríkissjóði á þessu ári, en hægt er að fá 25% af framleiðslukostnaði hér á landi endurgreiddan. Því má gera ráð fyrir því að kostnaður við gerð sjónvarpsþáttanna hafi verið um 1,25 milljarðar króna sem að skýrir veltuvöxtinn. Tekjurnar eru þær hæstu hjá félaginu frá árinu 2016.

Hagnaður Pegasus á árinu nam rúmum 55 milljónum króna en tap var af rekstri félagsins árið áður sem nam um 17 milljónum króna. Rekstrarhagnaður ársins nam 85,5 milljónum króna en rekstrartap ársins áður nam 55 milljónum króna.

Heildareignir félagsins námu 826 milljónum króna í lok árs og þar af námu veltufjármunir um 743 milljónum. Þar af voru kröfur á tengda aðila bókfærðar á um 431 milljón króna sem er aukning um 324 milljónir króna frá árinu áður. Jafnframt jókst handbært fé um 224 milljónir króna á árinu og nam um 274 milljónum króna í heildina. Þetta er gríðarleg aukning frá árinu áður þegar að eignir námu 332 milljónum króna en veltufjármunir. Það árið voru um 219 milljónir króna.

Stærstu eigendur félagsins eru Snorri Þórisson sem á 56,5% hlut en Palma ehf., í eigu Erlends Blöndahl Cassata og Lilju Óskar Snorradóttur, á 35,5%. Lilja Ósk er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.