Danski bankinn Ebh bank var að falli kominn vegna mikilla lausafjárvandræða og neyddist til að leita sér aðstoðar danska seðlabankans og annarra banka til að tryggja sér fé til áframhaldandi nauðsynlegrar starfsemi.

Gengi bréfa bankanns hafði fallið um hartnær 60% í gær.

Ebh bank hefur nú samið við danska seðlabankann og aðra lánveitendur um sölu á dótturfélögum þannig að hægt sé að undirbúa sölu eða samruna hans við aðra banka og á sama tíma hefur forstjóri hans verið rekinn úr starfi.

Viðskiptavinir tóku peningana sína

Ehb bank er fjórði danski bankinn sem í reynd lendir í þroti og hefur verið bjargað af öðrum bönkum og/eða danska seðlabankanum.

Fyrstur til að falla í valinn var smábankinn Trelleborg, sem Sydbank tók yfir, Roskilde bank hrundi í ágúst og endaði í fangi seðlabankans danska og í síðustu viku gafst Forstædernes Bank upp á að berjast fyrir eigin sjálfstæði og var tekinn yfir af Nykredit-bankanum.

Nú hefur Ebh bank sem sagt bæst í þennan hóp. Ebh færði tvisvar niður horfur á hagnaði á árinu í þessum mánuði, fyrst niður í 110 til 130 milljónir danskra króna en að- eins ellefu dögum síðar gaf hann út að enginn hagnaður yrði, m.a. vegna taps í tengslum við gjaldþrot Stones Invest sem var í eigu Steens Gude, stórs viðskiptavinar bankans.

Fram kemur í dönskum fjölmiðlum að í kjölfar seinni tilkynningar Ebh hafi aðrir bankar haldið að sér höndum í lánveitingum til bankans og við það bættist síðan að stór hópur viðskiptavina tók út fé sitt og flutti viðskipti sín annað. Niðurstaðan varð svo sú að Ebh lenti í óviðráðanlegum lausafjárvandræðum.