Um fjórir af hverjum tíu Íslendingum vilja leyfa Huang Nubo að leigja jörðina Grímsstaði á Fjöllum. Tæplega þriðjungur er á móti því, samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Af aðspurður voru 42% hlynntir eða mjög hlynntir því að leigja honum landið. Um 30,7% voru mjög eða frekar andvíg. Um 27,3% sögðust hvorki hlynnt né andvíg slíkum áformum.

Um helmingur þeirra sem sögðust myndu kjósa Vinstri græna yrði gengið til kosninga nú sögðust andvíg því að Huang fái að leigja jörðina. Um 31,3 prósent þeirra voru mjög eða frekar hlynnt því.

Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að afstaða stuðningsmanna hinna þriggja stóru flokkanna sé svipuð. „Um 54,2 prósent samfylkingarfólks eru hlynnt því að Huang fái að leigja Grímsstaði en 22,9 prósent eru því andvíg. Alls eru 50,5 prósent sjálfstæðismanna hlynnt því að hann fái að leigja en 26,6 prósent eru á móti. Þá eru 49,1 prósent framsóknarmanna hlynnt leigu en 29,8 prósent andvíg.“