Í nýlegri könnun MMR kemur fram að fjórir af hverjum fimm Íslendingum hafa notað síma undir stýri síðastliðna fimm mánuði - eða 79 prósent.

„Könnunin sýndi þó að fjöldi þeirra sem tala í símann án handfrjáls búnaðar hefur minnkað stöðugt síðan árið 2010 og farið úr 71% árið 2010 í 64% árið 2014 og mældist nú árið 2016 56%,“ segir einnig í frétt MMR um málið.

Einnig hefur fjöldi þeirra sem tala í símann undir stýri með handfrjálsum búnaði stóraukist eða úr 24 prósentum árið 2014 upp í 39 prósent á þessu ári.

Alls höfðu 23 prósent svarenda notað farsíma til þess að skrifa eða lesa tölvupóst, sms eða önnur skilaboð á síðustu 12 mánuðum. Einnig höfðu 12 prósent notað símann undir stýri til að fara á internetið til dæmis til að skoða fréttasíður eða samfélagsmiðla.

„Eldri aldurshópar voru mun ólíklegri til að nota síma undir stýri. Þannig sögðust 57% þeirra sem voru 68 ára eða eldri ekki hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði, samanborið við 25% þeirra sem voru 50-67 ára og 12% þeirra sem voru 30-49 ára. Tekjulægri hópar voru einnig ólíklegri til að nota farsíma undir stýri.

Athygli vekur að fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu var mun líklegra til að tala í farsíma undir stýri með handfrjálsum búnaði, eða 46%, samanborið við 28% þeirra sem höfðu búsetu á landsbyggðinni. 29% þeirra sem voru 18-29 ára höfðu notað farsíma undir stýri til að taka mynd. Til samanburðar höfðu 12% þeirra sem voru á aldrinum 30-49 ára notað síma undir stýri til að taka mynd en innan við 1% þeirra sem voru 50 ára eða eldri.,“ segir að lokum í frétt MMR.