Sérstakur saksóknari hefur ákært fjóra einstaklinga fyrir meint brot á gjaldeyrishöftum sem framin voru árið 2009. Í ákærunni kemur fram að hin meintu brot hafi verið umsvifamikil og samanstandi af viðskiptum með gjaldeyri fyrir um fjórtán milljarða króna á átta mánaða tímabili.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en hinir ákærðu eru Markús Máni Michaelsson, Karl Löve Jóhannsson, Gísli Reynisson og Ólafur Sigmundsson. Stöð 2 greindi frá því að í ákærunni komi fram að fjórmenningarnir hafi allir haft þekkingu og reynslu af gjaldeyrisviðskiptum, einnig eftir að fjármagnshöft voru sett á eftir að gengi íslensku krónunnar hrundið árið 2008.

Hér er um að ræða hið svokallaða Aserta máls sem vísar til sænska félagsins Aserta AB sem fjórmenningarnir tengdust. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og í janúar 2010 var haldinn sérstakur blaðamannafundur að frumkvæði Seðlabankans í höfuðstöðvum Ríkislögreglustjóra þar sem fjallað var um málið. Málið hefur verið til rannsóknar í rúm þrjú ár en þetta ku vera fyrsta ákæran sem gefin er út fyrir meint brot á lögum um gjaldeyrishöft.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var vísað til þess að í ákærunni kemur fram að fyrrnefnd gjaldeyrisviðskipti hafi numið 14,3 milljörðum íslenskra króna og varði 748 peningamillifærslur. Þar sem brot á lögunum um gjaldeyrisviðskipti urðu ekki refsiverð fyrr en sumarið 2009, telst einungis um tveir þriðju hluti brotanna refsiverður verknaður.

Sjá nánar um ákæruna á vef Vísis.