„Því hefur verið haldið fram að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða og að Al-Thani hafi ekki borið neina fjárhagslega áhættu sjálfur. Þetta hefur verið hrakið og sýnt hefur verið fram á að hann bar umtalsverða áhættu af viðskiptunum,“ segir Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings.

Hreiðar Már, Sigurður Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson, einn af stærstu hluthöfum bankans, hafa allir verið ákærðir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun, yfirhylmingu, peningaþvætti og fleira tengt málinu í aðdranda hruns í tengslum við kaup sjeiksins Al-Thani á fimm prósenta hlut í Kaupþingi fyrir tæpa 26 milljarða króna nokkrum dögum áður en bankinn á hliðina.

Venjuleg refsing við brotum sem þessum er fangelsi allt að tveimur árum. Hins vegar má þyngja refsinguna ef sakir eru mjög miklar í allt að sex ár.

Flókin lánaflétta í tengslum við kaup Al-Thanis á hlutnum í bankanum er rakin í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar kemur m.a. fram að bankinn lánaði félögum Al-Thanis og Ólafs hvoru um sig 12,8 milljarða króna. Bæði félögin lánuðu féð áfram til annarra félaga sem síðan færðu féð til félagsins Q Iceland Finance, sem var í eigu fjárfestisins.

Nánar er fjallað um ákærurnar í Kaupþingsmálinu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.