Bresk yfirvöld skoða nú hvort fleiri bankar en Barclays hafi tekið þátt í Libor vaxtasvindlinu, sem nýlega komst upp um. Bankarnir, sem Bloomberg fréttastofan segir að eru til skoðunar, eru Deutsche Bank, HSBC, Societe Generale og Credit Agricole.

Barclays var nýlega sektaður um sem nemur 56,6 milljörðum króna fyrir að hafa með ólöglegum hætti haft áhrif á Libor vexti, sér til hagsbóta.

Nöfn þriggja miðlara hafa verið birt, en þeir eru sagðir eiga yfir höfði sér ákærur vegna málsins, samkvæmt frétt Bloomberg. Þeir eru Michael Zrihen hjá Credit Agricole, Didier Sander hjá HSBC og Christian Bittar hjá Deutsche Bank.